Innlent

Slagsmálahópurinn á Facebook sprakk út

Jakob Bjarnar skrifar
Samkvæmt heimildum Vísis varð eitt myndband að miklu báli á augabragði; meðlimir slagsmálasíðu urðu um þúsund áður en krakkarnir gátu svo mikið sem deplað auga.
Samkvæmt heimildum Vísis varð eitt myndband að miklu báli á augabragði; meðlimir slagsmálasíðu urðu um þúsund áður en krakkarnir gátu svo mikið sem deplað auga.
Lögreglan rannsakar nú skipulögð slagsmál meðal barna og unglinga sem fara fram í Vogahverfinu og víðar í Reykjavík. Slagsmálin eru harkaleg en rannsókn lögreglunnar er á frumstigi.

Myndböndum af skipulögðum slagsmálum barna og unglinga er dreift á lokaðri síðu á Facebook. Stöð 2 sagði frá málinu í gær en á myndböndunum má sjá að slagsmálin eru býsna harkaleg. Jóhann Karl Þórisson fer með rannsóknina hjá lögreglunni, en hún er nú á frumstigi.

„Við fengum upplýsingar um þetta fyrir helgi og erum að hefja rannsókn á þessu; um hvað þetta fjallar hreinlega.“

Ekkert sérstakt sem hönd á festir í tíðarandanum

Slagsmál meðal krakka og unglinga eru í sjálfu sér ekkert nýtt en nú virðist ríkja sannkallað æði – talsvert stór hópur fylgist með og tekur þátt. Jóhann Karl segist ekki vita til þess að neitt sérstakt sé í tíðarandanum nú sem kann að skýra þetta.

„Nei, ekkert sem hönd er á festandi; kannski tölvuleikir eða einhverjar bíómyndir? Það hafa verið sögusagnir um gengjaslagsmál í gegnum tíðina og slagsmál í Öskjuhlíðinni í gamla daga en það er ekkert sérstakt í tíðarandanum í dag sem býður uppá meiri hörku,“ segir Jóhann Karl sem stefnir að því að komast til botns í hvað er í gangi.

Samkvæmt heimildum Vísis var stofnað til síðunnar í september, þá í tengslum við birtingu myndbands af slagsmálum í Vogahverfinu. Áður en þeir sem það gerðu vissu hvaðan á sig stóð veðrið sprakk síðan út og voru á tímabili 900 meðlimir skráðir, flestir á á grunn- og framhaldsskólaaldri. Í kjölfarið var efnt sérstaklega til slagsmála, þau mynduð á síma og birt á síðunni.

Vaxandi órói meðal ungmenna

Jónína Ólöf Emilsdóttir skólastjóri í Vogaskóla vill taka það skýrt fram að þetta sé ekki bundið við Vogaskóla fremur en aðra skóla borgarinnar. „Þetta er samfélagslegur vandi, ég get ekki séð þetta öðru vísi. Ekkert endilega hér frekar en annars staðar en það virðist meiri órói en verið hefur, hver sem ástæðan er? Ég hef það á tilfinningunni,“ segir Jónína í samtali við Vísi. Hún hefur ekki svör við því hvað veldur, nema ef vera kynni aukin félagsleg einangrun barna, sem á sín samskipti á netinu og þar gerist allt með miklum hraða.

Jónína bendir á að umfjöllun geti orkað tvímælis, eftir umfjöllun Stöðvar 2 hafi fjöldinn aukist á síðunni. Ef um er að ræða blóðug slagsmál þá beri að tilkynna það lögreglu og hún hafi þá tal af viðkomandi. Spurð segir hún að skólayfirvöld séu að sjálfsögðu að skoða málið. „Við erum að vinna með forvarnir og Marita fræðslu og brýnum fyrir foreldrum að vera vakandi; hvar eru börnin ykkar?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×