Innlent

Drukkin górilla réðst á ljósmyndara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Um það bil helmingur af þeim 700 fjallagórillum sem eftir eru í heiminum lifa í Virunga-fjöllum í Afríku en stríð, veiðar og minnkandi kjörlendi ógna tilveru górillanna.
Um það bil helmingur af þeim 700 fjallagórillum sem eftir eru í heiminum lifa í Virunga-fjöllum í Afríku en stríð, veiðar og minnkandi kjörlendi ógna tilveru górillanna. Vísir/Getty
Franski dýralífsljósmyndarinn Cristophe Courteau varð fyrir því óláni á dögunum að drukkin górilla réðst á hann þar sem hann var að taka myndir af górilluhóp í Virunga-fjöllum í Rúanda.

„Allir í górilluhópnum voru mjög æstir, líklega út af því að það voru allir að borða bambusstilka en górillur verða mjög drukknar og æstar af þeim,“ segir Courteau í samtali við The Telegraph.

Górillan sem réðst á hann heitir Akarevuro, er karlkyns og vegur um 250 kíló. Courteau segir að Akarevuro hafi slegið hann eins og rugby-leikari. Ljósmyndaranum var nokkuð brugðið en sem betur fer var hann ekki „skotmark“ górillunnar.

„Fyrir aftan mig stóð önnur karlkyns górilla sem Akarevuro var á eftir því sú górilla hafði verið að gefa einni af kærustum Akarevuro auga. Akarevuro var því eins og eldibrandur á eftir honum þegar hann var búinn að ýta mér frá,“ segir Courteau.

Um það bil helmingur af þeim 700 fjallagórillum sem eftir eru í heiminum lifa í Virunga-fjöllum í Afríku en stríð, veiðar og minnkandi kjörlendi ógna tilveru górillanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×