Innlent

Býst við að viðgerð á Djúpvegi klárist klukkan átta

Atli Ísleifsson skrifar
Kaflinn sem um ræðir er á Djúpvegi, númer 61, og er um 700 metrum suður af Hólmavík.
Kaflinn sem um ræðir er á Djúpvegi, númer 61, og er um 700 metrum suður af Hólmavík.
Sverrir Guðbrandsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, segir að áætlað sé að viðgerð á kaflanum suður af Hólmavík klárist um klukkan 20 í kvöld. Þetta var haft eftir Sverri um 17:30 fyrr í dag. „Þetta er í áttina. Upphaflega gerðum við ráð fyrir að þetta myndi klárast um klukkan 18 en það mun eitthvað tefjast eins og verða vill.“

Kaflinn sem um ræðir er á Djúpvegi, númer 61, og er um 700 metrum suður af Hólmavík. Sverrir segir að um tíu manns séu að störfum, bæði starfsmenn Vegagerðarinnar og verktakar. Viðgerðin hófst um klukkan 21 í gærkvöldi og hefur verið unnið stanslaust síðan.

Nemendurnir sextíu og bílstjórinn sem sátu föst í rútu í Staðardal í nótt hafast nú við í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem opnuð var í félagsheimilinu á Hólmavík um hádegisbil fyrr í dag. Ungmennin voru í rúmar tólf klukkustundir í rútunni eftir að vegurinn sunnan Hólmavíkur fór í sundur í vatnavöxtum.

Nemendurnir eru allir á unglingastigi í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki en þeir voru nú um helgina í vinaskólaheimsókn í Menntaskólanum á Ísafirði. Rútan var á leið til Hólmavíkur frá Ísafirði seint í gærkvöld en festist fremst í Staðardal norðan Hólmavíkur þar sem vegurinn hafði rofnað. Ekki þótti hættandi á björgunaraðgerðir í nótt og höfðust ungmennin við í rútunni en það þótti öruggasti kosturinn.

Í spilaranum að ofan má sjá myndband af aðstæðum á vettvangi sem Jón Halldórsson tók.


Tengdar fréttir

Sextíu ungmenni föst í rútu við Hólmavík

Björgunarsveitarmenn og Vegagerðarmenn eru nú að undirbúa að selflytja yfir 60 unglinga úr Fjölbrautarskólanum á Sauðárkróki úr rútubíl, þar sem þeir hafa hafist við í alla nótt eftir að þjóðvegurinn sunnan Hólmavíkur grófst í sundur vegna vatnavaxta.

„Allar ákvarðanir sem teknar voru á vettvangi réttar“

„Þegar við komum þarna þá virkaði þetta ekki eins og mikið fljót fyrir okkur,“ segir rútubílstjórinn Sævar Þorbergsson. Lögregla og björgunarsveitir hafi þó vitað betur og tekið réttar ákvarðanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×