Innlent

Fjöldahjálparstöð opnuð fyrir veðurteppta á Bifröst

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Af Holtavörðuheiði.
Af Holtavörðuheiði. mynd/geir guðsteinsson
Fjöldahjálparstöð var opnuð á Bifröst í kvöld vegna ófærðar á Holtavörðuheiði. Tæplega tuttugu manns var bjargað úr bílum sínum af heiðinni og niður til byggða.

„Þetta er í raun í fyrsta skipti sem þetta er gert hér,“ segir Birgir Hauksson en hann og Gróa, kona hans, tóku á móti ferðalöngum.

„Hingað komu um tuttugu manns úr tíu til fimmtán bílum sem voru skildir eftir á heiðinni. Þeir sem vildu fengu gistingu á Bifröst en aðrir létu sækja sig og gista annars staðar. Kaffihúsið opnaði og bauð fólki upp á kjötsúpu á meðan við skráðum alla inn,“ segir Birgir.

Að sögn Birgis voru flestir í ágætu standi en leiðir á biðinni. Einhverjir voru kaldir og blautir. Veðrið í Norðurárdalnum er allt í lagi en upp á heiði er enn bandvitlaust og engin færð.

„Það var fundur núna klukkan níu í Borgarnesi um hvernig eigi að tækla næstu skref. Bílarnir eru enn upp á heiði og það er verið að velta fyrir sér hvort það eigi að ná í þá núna eða í fyrramálið.“

Samkvæmt heimildum Vísis er flutningabíll á hliðinni uppi á Holtavörðuheiði. Mannmergð er veðurteppt norðan heiðarinnar og hefur komið til tals að reyna að koma einhverjum bílum yfir hana í kvöld til að létta á Staðarskála, Reykjaskóla og Hvammstanga.

„Það er verið að meta ástandið eins og staðan er núna,“ segir Kristján Pétursson hjá björgunarsveitinni Brák í Borgarnesi. „Vegagerðin tekur stöðuna og svo ákveðum við næstu skref í kjölfarið en ég veit ekki enn hver þau verða.“


Tengdar fréttir

Holtavörðuheiði lokað

Búið er að loka Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Laxársdalsheiði vegna mikillar hálku og óveðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×