Innlent

Velti bifreið sinni ofan í gjótu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ökumaðurinn missti stjórn á bifreið sinni rétt við afleggjara að Bláa lóninu.
Ökumaðurinn missti stjórn á bifreið sinni rétt við afleggjara að Bláa lóninu. vísir/gva
Talsvert hefur verið um umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Í gær hafnaði bifreið á ljósastaur á Reykjanesbrautinni og stöðvaðist utan vegar. Bifreiðin var í framhaldinu fjarlægð með dráttarbifreið.

Á Sandgerðisvegi varð óhapp þegar bifreiðar mættust með þeim afleiðingum að speglar þeirra rákust saman og brotnaði spegill annarrar þeirra, svo og rúða. Þá var bifreið ekið aftan á aðra í Keflavík og fóru farþegar annarrar þeirra á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.

Ökumaður bifreiðar, sem ók niður ljósastaur í Kúagerði og skemmdi víragirðingu, lét sig hverfa af vettvangi áður en til hans náðist. Sama máli gegndi um ökumann sem bakkaði á kyrrstæða bifreið í Garði og gaf sig ekki fram.

Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni rétt við afleggjara að Bláa lóninu. Bifreiðin valt og stöðvaðist á hliðinni í gjótu. Ökumaðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×