Innlent

Vill að ráðamenn noti ferðaþjónustu fatlaðra í mánuð

Bjarki Ármannsson skrifar
Anna Þóra leggur til að Sigmundur Davíð prufi ferðamátann í mánuð.
Anna Þóra leggur til að Sigmundur Davíð prufi ferðamátann í mánuð. Mynd/Vísir
„Það skilur aldrei neinn neitt nema hann reyni það sjálfur,“ segir Anna Þóra Björnsdóttir uppistandari sem leggur til að ráðamenn íslensku þjóðarinnar prufi að notast við ferðaþjónustu fatlaðra í mánuð í von um að þjónustan verði bætt. Þjónustan hefur verið gagnrýnd harkalega síðustu mánuði eftir að Strætó hf. tók við rekstri hennar en Anna Þóra hefur áralanga reynslu af því að treysta á þjónustuna.

„Pabbi var með MS og dó fyrir nær tólf árum síðan,“ segir Anna Þóra. „Það var ofboðsleg niðurlæging að vera háður þessu. Að geta ekki farið þangað sem þig langar að fara, vera skilinn eftir.

Pabbi var í Sinfóníunni þegar hann var ungur maður og elskaði að fara á Sinfóníutónleika. Það var yfirleitt mjög leiðinlegt og hann gleymdist og var ekki sóttur og var að frjósa í hel fyrir utan Háskólabíó. Þetta gerðist margítrekað.“

Anna Þóra segir það til skammar að svona sé komið fram við fatlaða. Hún viðraði fyrr í kvöld á Facebook-síðu sinni hugmynd að lausn á vandanum.

„Það sem mér finnst að ætti að gera til að fólk fatti þetta: Látum Sigmund Davíð og Bjarna Ben ferðast með ferðaþjónustu fatlaðra í mánuð,“ segir Anna. „Síðan skulum við tala um þetta.“

Anna segir jafnframt að það fé sem sparist við að nota ekki ráðherrabílana í mánuð gæti þá í staðinn runnið til Landsspítalans. En telur hún að ráðamenn muni taka vel í þessa hugmynd hennar?“

„Ég ætla að vona það,“ segir hún. „Þeir taka svo vel í allt, eins og sást um helgina þegar allir komu saman til að ganga í París.“


Tengdar fréttir

Fatlaðir látnir rúnta um bæinn í hagræðingarskyni

Ferðaþjónusta fyrir fatlaða í borginni er í ólestri eftir að strætó tók við rekstrinum og breytti fyrirkomulaginu. Ferð sem á að taka tíu mínútur hvora leið getur tekið marga klukkutíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×