Innlent

„Skiljanlega urðu margir góðir Stjörnumenn sárir“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Nefndarmenn, sem allir eru í sjálfboðavinnu fyrir félagið, harma þá neikvæðu umræðu sem átt hefur sér stað, en ítreka að allir geri þeir sitt besta fyrir Stjörnuna,“ segir í tilkynningu frá þorrablótsnefnd Stjörnunnar vegna umræðu um miðasölu á þorrablót félagsins.

Vísir sagði frá því í gær að miðar á þorrablótið hefðu selst upp á innan við hálftíma. Margir kvörtuðu undan framkvæmdinni á miðasölunni en rúmlega 700 miðar stóðu til boða í almennri sölu og var uppselt á blótið þegar búið var að afgreiða 22 einstaklinga úr röðinni.

Margir sárir

Þorrablótsnefndin segir í tilkynningunni að skiljanlega hefðu margir Stjörnumenn orðið sárir. „Og í kjölfarið hafa ýmsar sögur farið af stað og því miður fullyrðingar verið settar fram sem eru einfaldlega rangar,“ segir í tilkynningunni. Lúðvík Örn Steinarsson er formaður þorrablótsnefndar Stjörnunnar en hann segir í samtali við Vísi að meðal annars hafi verið ranglega fullyrt í umræðunni um miðasöluna að einstök fyrirtæki hefðu keypt miða í miklu magni á blótið. „Það var ekkert fyrirtæki að kaupa miða í stórum stíl,“ segir Lúðvík.

Um ellefu hundruð miðar eru gefnir út vegna þorrablótsins en í tilkynningu frá þorrablótsnefnd Stjörnunnar kemur fram að um 800 miðar hefðu farið í almenna sölu á síðastliðinn þriðjudagsmorgun.

Höfðu samband við þá sem keyptu miða

„Nefndin hefur haft samband við þá sem keyptu flesta miða og fengið staðfest að þar er í lang flestum tilvikum um Stjörnufólk að ræða sem hefur farið á þorrablótið í áraraðir. Einnig voru hóparnir sem keyptu miða í ár færri, en mun stærri. Þá fóru um 65 miðar til stærstu styrktaraðila þorrablótsins, þorrablótsnefnd keypti 18 miða en aðrir miðar voru seldir til helstu styrktaraðila Stjörnunnar, velunnara, forystufólks, starfsfólks og gesta félagsins,“ segir í tilkynningunni sem má lesa hér fyrir neðan:



Frá þorrablótsnefnd Stjörnunnar

Vegna umræðu um miðasölu á þorrablót Stjörnunnar vill þorrablótsnefnd árétta eftirfarandi:

Miðar voru seldir með sama hætti og verið hefur undanfarin ár. Miðasalan hófst kl. 9:00 þriðjudaginn 13. janúar síðastliðinn en eftirspurn varð hins vegar töluvert miklu meiri en verið hefur og kom það öllum aðstandendum í opna skjöldu.  Þorrablót Stjörnunnar á sér langa sögu og upphaflega var það haldið af hússtjórn Stjörnuheimilisins.  Undanfarin 14 ár hefur núverandi þorrablótsnefnd komið að skipulagningu blótsins og tók það upphaflega nokkra daga að selja miðana.  Síðustu ár hefur orðið mikil breyting á og hafa miðarnir selst upp á nokkrum klukkustundum en þennan þriðjudagsmorgun varð uppselt á innan við hálftíma.

Skiljanlega urðu margir góðir Stjörnumenn sárir og í kjölfarið hafa ýmsar sögur farið af stað og því miður hafa fullyrðingar verið settar fram sem eru einfaldlega rangar. Hið rétta er að um 800 miðar fóru í almenna sölu á þriðjudagsmorgun.  Nefndin hefur haft samband við þá sem keyptu flesta miða og fengið staðfest að þar er í lang flestum tilvikum um Stjörnufólk að ræða sem hefur farið á þorrablótið í áraraðir. Einnig voru hóparnir sem keyptu miða í ár færri, en mun stærri. Þá fóru um 65 miðar til stærstu styrktaraðila þorrablótsins, þorrablótsnefnd keypti 18 miða en aðrir miðar voru seldir til helstu styrktaraðila Stjörnunnar, velunnara, forystufólks, starfsfólks og gesta félagsins.

Þessi gríðarlega eftirspurn er auðvitað merki um hversu vel hefur tekist til við þorrablótið á undanförnum árum, uppgang og frábæran árangur félagsins á síðasta ári og allrar þeirrar gleði sem fylgir starfinu hjá Stjörnunni. Þetta gefur okkur hins vegar tilefni til þess að endurskoða fyrirkomulag miðasölunnar fyrir næsta ár. Það er einlægur vilji allra í þorrablótsnefnd að þannig sé búið um hnútana að sem víðtækust sátt ríki, þótt erfitt sé að gera öllum til geðs þegar etirspurnin er svona gríðarleg.

Nefndarmenn, sem allir eru í sjálfboðavinnu fyrir félagið, harma þá neikvæðu umræðu sem átt hefur sér stað, en ítreka að allir geri þeir sitt besta fyrir Stjörnuna.

Skíni Stjarnan!


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×