Innlent

Össur sem eldibrandur inn á Facebook

Jakob Bjarnar skrifar
Össur og Eggert eru nýjir á Facebook og vefst ekki fyrir þeim að fóta sig á þeim hála ís.
Össur og Eggert eru nýjir á Facebook og vefst ekki fyrir þeim að fóta sig á þeim hála ís.
Fáir ef nokkrir hafa komið með eins miklum hvelli inná Facebook (Fb) og þingmaðurinn Össur Skarphéðinsson. Hann hefur bókstaflega tekið Fb með trompi. Hann skráði sig til leiks um áramótin og er þegar kominn með 2081 Fb-vin, og þeim fer stöðugt fjölgandi. fyrsta tilkynning hans var svohljóðandi: „Forsætisráðherrann gaf út tilskipun um áramótin um að við ættum öll að vera góð hvert við annað. Ég fór á Facebook til að gleðja hann og ríkisstjórnina. Gleðilegt ár!“

Mikill fögnuður braust út meðal vina hans og inná Fb-vegg hans hrönnuðust kveðjurnar: Takk fyrir að vera vinur minn, velkominn til leiks og svo framvegis. Það er nánast eins og Mark Zuckerberg hafi haft Össur í huga þegar hann hannaði Facebook. Össur er náttúrlega einn þekktasti bloggari landsins og var kunnur fyrir að setja inn krassandi pistla að nóttu til eins og frægt er orðið. Nú er hann sem kálfur úr fjósi að vori og kann sér ekki læti.

Eggert er brattur á Facebook, en þó sem kettlingur í samanburði við Össur.gva
Um svipað leyti stofnaði Eggert Skúlason, nýr ritstjóri DV, reikning á Facebook. Eggert er hress, vinamargur og fer ekki með veggjum en í samanburði við Össur er hann kettlingur. Eggert er kominn með 450 vini, sem má heita ljómandi gott eftir svo stuttan tíma; sem segir sína sögu um hina nýju Fb-stjörnu; Össur Skarphéðinsson. Fyrsta Fb-færsla Eggerts var löng og fjallaði um uppsagnarbréf Jóhanns Páls Jóhannssonar blaðamanns. „Hann er hættur. Þetta eru fyrstu beinu samskiptin sem við Jóhann Páll eigum. Pínu vonbrigði því ég held að Jóhann Páll sé skarpur og öflugur blaðamaður og hefði verið gaman að kynnast honum á þeim vettvangi.“

Og svo heldur Eggert áfram að koma á framfæri einu og öðru sem hann telur vert að leiðrétta sem snýr að umræðu um sig og DV undanfarna daga, en færslu sína endar hann á: „Já og bara eitt að lokum. Veit einhver hver skráði mig í Framsóknarflokkinn?“

Viðtökurnar sem Eggert fær eru vissulega góðar, „takk fyrir að vera vinur minn“ og „takk fyrir Facebookvinskapinn“ en þetta er ekkert í líkingu við fögnuðinum sem sjá má á vegg Össurar.

Báðir eru þeir blaðamenn frá fornu fari, og Eggert er að taka fram skóna nýjan leik, á DV, ritfærir vel og ekki spurning; þeir munu setja sinn svip á umræðuna sem geysist þar fram eins og stórfljót í leysingum að vori; á þeim fjölda sniðmengja sem þar eru. Og þeir voru ekki búnir að vera lengi á Facebook þegar fjölmiðlar voru farnir að gera sér mat úr því sem þeir hafa til málanna að leggja. Eins og glögglega má sjá á Fb-viðtali við Össur sem birtist hér neðar.

Athyglisvert er að þeir eru með svipaða opnumynd; tilkomumiklar myndir ættaðar úr náttúru Íslands, Eggert með mynd af Dröngunum út af Dyrhólaey en Össur, sem er fiskifræðingur, sérfróður í kynlífi laxa, er vitaskuld með mynd af ísaldarurriða úr Þingvallavatni.

Samanburðartilraun á Facebook

Vísir gerði tilraun; sendi þeim spurningar, á spjallforriti Fb, eða chattinu eins og það heitir fb-lingói, en víst er að netið hefur og mun hafa áhrif á tungumálið, bæði til að fá fram svör við þremur léttum spurningum sem og til að sjá hvor er viðbragðsfljótari. Hvorugur hafði hugmynd um að þetta væri einskonar keppni og svo var bara að sjá hvað gerist:

Sæll félagi og velkominn á Fb! Ég er að gera létta frétt á Vísi um Facebook, um nýliða á þeim vettvangi og var að velta því fyrir mér hvort þú værir ekki til í að svara meðfylgjandi spurningum, þá sem fyrst, vitaskuld.

a)    Hvernig stendur á því að þú ert ekki kominn á Fb fyrir löngu?

b)    Hvernig lýst þér á þig á þessum slóðum?

c)    Sérðu fyrir þér að Facebook hafi breytt umræðunni á Íslandi og þá fjölmiðlum?

Allra bestu kveðjur.

Ekki liðu nema tvær mínútur þar til Össur var búinn að svara, eins og sjá má hér neðar – Össur er þegar búinn að tileinka sér alla helstu þætti samskiptamiðilsins, og leikur sér að því. Eggert er hins vegar ekki búinn að svara, nú klukkutíma síðar. Gera má ráð fyrir því að hann sitji á strembnum ritstjórnarfundi í húsakynnum DV. (Berist svör frá Eggerti, mun þessi umfjöllun verða uppfærð.)

Ráðgjafar Össurar ráðlögðuð honum eindregið frá því að láta til sín taka á Facebook -- nú halda honum engin bönd.Vilhelm
Ekki talið óhætt að sleppa Össuri lausum á Facebook

„Sp1. í dag bondar nútímafjölskyldan með því að sitja steinþegjandi saman í stofunni og skeiða facebook og ég var orðinn einmana þegar konur mínar þrjár sátu og mösuðu við heiminn – og gerði heiðarlega tilraun til að masa við þær. Þetta er allt annað núna! – Gamanlaust, áður en fb tók yfir landið og miðin blogguðu menn, og ég var ofurbloggari með ærslum. Þegar ég varð utanríkisráðherra var talið hættulegt að sleppa slíkum manni eftirlitslausum á lendur feisbókar og ráðgjafar mínir réðu mér eindregið frá því. Líklega var það gott. Við værum hugsanlega í stjórnmálasambandi við færri ríki hefði ég ekki farið að því.“

Facebook eins og skotpallur

„Sp2.Þokkalega. Það ríkir miklu meiri friður á facebook en ég átti von á. Menn eru ekki eins orðljótir og stundum á mínum vinnustað. Menn eru einsog forvitnar mýs sem fara um frumskóg og lyfta hverju blaði. Ég fæ sæg af skilaboðum frá gömlum vinum, allstaðar í heiminum, sem reynast þrátt fyrir allt elska mig ennþá. Það er mjög gaman. Fyrir mig sem stjórmálamann er þetta kjörinn vettvangur til að koma sterkum skoðunum á framfæri. Miðillinn er það frjálslegur að það eru engar kröfur gerðar um lengd eða stíl, og maður er örsnöggur að koma frá sér skoðanastungu út um allt. Hafi menn eitthvað að segja, sem stöku stjórnmálamaður hefur þrátt fyrir allt, þá virkar facebook einsog skotpallur og svo endar afurðin oft með eldglæringum í hefðbundnu miðlunum, jafnvel í leiðurum uppi í Hádegismóa.“

Facebook breytir fjölmiðlun

„Sp3.Já, líklega. Alla vega fyrir pólitíkina. Facebook gerir allt hraðar. Ég var með smáinnlegg í gær, og áður en ég var búinn að tannbursta mig var það komið í tvo aðra miðla. Hlýtur, þrátt fyrir allt, að vera himnasending fyrir fréttamenn sem eru fyrir bragðið nær kvikunni, og þar með allir sem þá lesa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×