Innlent

Lögmaður segir vel tengda Íslendinga hafa notað líkama ungs manns gegn greiðslu

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögmaðurinn Sævar Þór Jónsson er með sláandi frásögn á bloggi sínu af ungum manni frá Þýskalandi en Sævar segir manninn hafa komið hingað til lands gegn því að leyfa nokkrum íslenskum mönnum að nota líkama hans.

Sævar segir þetta mál vera langt frá þeim raunveruleika sem hann vill kalla sinn eigin. Hann segir unga manninn frá Þýskalandi hafa haft samband við sig á milli jóla og nýárs eftir að hafa lesið grein erlendis um mál sem Sævar hafði unnið að og varðar bann við því að samkynhneigðir geti gefið blóð.

„Hafði hann haft upp á mér í því skyni að biðja mig um að hjálpa sér í erfiðleikum sem hann væri staddur í. Ég bað hann um að upplýsa mig um málið og kom þá í ljós að hann var staddur í sumarbústað einhvers staðar úti á landi með þremur íslenskum karlmönnum,“ skrifar Sævar og segist hafa skynjað að eitthvað væri bogið við frásögnina.

Leyfði mönnum að nota líkama sinn gegn greiðslu

Hann bað unga manninn um að útskýra betur fyrir sér í hverju erfiðleikar hans fælust og hver tilgangur samtalsins væri.

„Hann tjáði mér að hann væri 24 ára gamall, hafi átt erfiða æsku og leiðst út í að selja sig til að geta framfleytt sér. Hann hafi gengist við því að koma til Íslands og að leyfa nokkrum hérlendum karlmönnum að nota líkama sinn eins og hann orðaði það sjálfur. Í þessu fólst að hann átti að stunda kynlíf með nokkrum karlmönnum sem borguðu fyrir hann flugfarið og greiddu fyrir þjónustu hans,“ skrifar Sævar.

Sævar segir manninn hafa gert samkomulag við umrædda karlmenn um að hann myndi gista hjá karlmannspari en færi til hinna karlmannanna á ákveðnum dögum.

Bönnuðu honum að hafa samband við nokkurn mann

„Tjáði hann mér að þeir hefðu tekið af honum vegabréfið og fjármuni ásamt því að banna honum að hafa samband við nokkurn mann hér á landi nema umrætt karlmannspar sem hýstu hann. Vildi hann athuga hvort ég gæti aðstoðað hann í því að komast aftur af landi brott og um leið fá vegabréfið sitt til baka. Hann tjáði mér að hann hafi þurft að framkvæma athafnir fyrir umrædda menn sem væru svo viðurstyggilegar að hann gat ekki tjáð sig um það án þess að gráta,“ skrifar Sævar sem segist hafa tjá unga manninum umsvifalaust að setja sig í samband við lögregluna og tilkynna málið. Þá sagðist Sævar reiðubúinn að gera það fyrir unga manninn sem frábað Sævar hins vegar um að gera það of ótta við að það hefði afleiðingar heima fyrir.

„Ég tjáði honum að ég gæti ekki hjálpað honum nema að lögreglan væri látin vita. Hann bað mig um að gera það samt ekki. Ég ítrekað við hann afstöðu mína en ég sagði honum að hafa samband við mig aftur og leyfa mér að fylgjast með framvindu málsins. Ég gerði honum líka grein fyrir því að ég myndi þrátt fyrir fyrri afstöðu mína reyna að hjálpa honum að komast burt og finna fyrir hann ferðaskjöl með aðstoð fagaðila. Um þetta leyti sleit hann samtalinu og ekkert heyrðist í honum fyrr en viku síðar,“ skrifar Sævar.

Á götunni

Hann segir unga manninn hafa tjáð honum að hann væri kominn aftur heim til Þýskalands og væri á götunni þar sem fósturforeldrar hans hefðu gefist upp á honum vegna þess að hann hefði farið í þessum erindagjörðum til Íslandsþ

„Hann tjáði mér að farið hafi verið illa með hann á Íslandi, mennirnir sem borguðu honum að koma hingað hafi verið hræddir um að málið myndi komast upp og hafi hótað honum öllu illu. Tjáði hann mér að umræddir menn virtust vera vel tengdir á Íslandi og það væri honum fyrir bestu að þaga því þeir hefði líka tengsl í Þýskalandi. Í þetta skipti náði ég að ræða meira við viðkomandi og komast að ýmsu í fortíð hans og stöðu sem er þyngri en tárum taki að fjalla um,“ skrifar Sævar.

Hann segir afstöðu sína til laga um vændis og vændiskaup hér á landi óbreytta eftir þetta atvik. Segir Sævar regluverk sem gerir kaup á vændi ólöglegt koma verst niður á þeim sem stunda vændi. „Þar sem meiri hætta er á að umræddur aðili verður beittur þrýstingi, hótunum og ofbeldi vegna ótta kaupandans um að eitthvað komist upp.“

Lesa blogg Sævars í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×