Enski boltinn

Rodgers: Tilfinningasemin kemur ekki Gerrard í liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Brendan Rodgers.
Steven Gerrard og Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar ekki að láta tilfinningarnar ráða um það hvenær hann setur fyrirliðanna Steven Gerrard aftur í byrjunarliðið en Gerrard er að koma til baka eftir meiðsli.

Steven Gerrard er orðinn leikfær og Liverpool heimsækir Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Swansea City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Gerrard var að glíma við tognun aftan í læri en hefur náð sér.

Liverpool hefur unnið alla þrjá deildarleiki sína án Steven Gerrard og í þeim hafa Joe Allen og Jordan Henderson verið að standa sig vel inn á miðsvæðinu.

„Þessi maður er einn af þeim bestu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og mögulega besti leikmaðurinn í sögu félagsins. Ég veit hinsvegar að Stevie setur alltaf liðið í fyrsta sætið," sagði Brendan Rodgers í viðtali við Telegraph fyrir leikinn á móti Swansea City í kvöld.  

„Ég ber mikla virðingu fyrir honum hvort sem hann er að spila eða ekki. Ég dáist af honum bæði sem leikmanni og sem persónu," sagði Rodgers.

„Þetta er alltaf spurning um að finna rétta jafnvægið í liðinu og reyna að sjá til þess að liðið vinni leikinn. Hann hefur kosti sem munu hjálpa liðinu á lokasprettinum. Ég er hinsvegar ekki einn af þeim sem læt tilfinningarnar ráða því hverjir spila," sagði Rodgers.

„Ég vel ekki liðið út frá því hvort mér líkar við viðkomandi eða ekki. Ég vinn náið með leikmönnunum en þeir eru allir með ólíka persónuleika," sagði Rodgers.

„Það eru allir að bíða eftir því hvort Stevie komi aftur inn í liðið alveg eins og var með Daniel Sturridge. Það mikilvægasta er að Steven er leikfær og svo er Lucas Leiva líka að koma til baka. Þetta snýst alltaf um liðið og liðsandann. Ég vel alltaf það lið sem ég tel að eigi mesta möguleika á því að vinna leikinn," sagði Brendan Rodgers að lokum.

Leikur Swansea og Liverpool hefst klukkan 20.00 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×