Enski boltinn

Grealish valdi númerið sitt vegna Rooney og Gascoigne

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Grealish var mjög ánægður með að treyja númer átján var laus hjá Everton.
Jack Grealish var mjög ánægður með að treyja númer átján var laus hjá Everton. @everton

Jack Grealish spilar með Everton í ensku úrvalsdeildinni á komandi leiktíð eftir að Manchester City samþykkti að lána hann þangað.

Grealish hefur gengið frá sínum málum og valið sér treyju númer átján. Það er ástæða fyrir því.

„Já það er ástæða fyrir því að ég valdi treyju númer átján. Það voru önnur númer í boði en tveir uppáhalds ensku fótboltamennirnir mínir í gegnum tíðina eru Wayne Rooney og Paul Gascoigne,“ sagði Jack Grealish.

„Ég veit að þeir spiluðu báðir í númer átján hjá Everton,“ sagði Grealish.

„Um leið og ég vissi að þessi samningur væri að klárast og ég sá að treyja númer átjan væri laus þá vissi ég að hún yrði fullkomin fyrir mig. Það var eina númerið sem ég hugsaði um eftir það,“ sagði Grealish.

„Ég talaði líka við Wayne [Rooney] áður en ég kom hingað og ég nefndi þetta við hann, um treyju númer átján, og ég vona að hann sé líka ánægður með þetta,“ sagði Grealish.

Wayne Rooney spilaði í treyju númer átján þegar hann sló í gegn hjá Everton aðeins sextán ára gamall haustið 2002. Hann skoraði eftirminnilegt mark á móti Arsenal í trreyjunni en Everton seldi strákinn síðan fyrir þá metupphæð til Manchester United í ágúst 2004.

Paul Gascoigne spilaði með Everton frá 2000 til 2002 en Rooney tók einmitt treyjuna hans þegar Gazza yfirgaf Goodison Park.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×