Fótbolti

Ronaldo gæti spilað á Ólympíuleikunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldo í leik gegn Írak á Ólympíuleikunum í Aþenu.
Ronaldo í leik gegn Írak á Ólympíuleikunum í Aþenu. Vísir/Getty
Portúgal hefur tryggt sér keppnisrétt í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna í Ríó en U-21 lið landsins leikur til úrslita gegn Svíþjóð á EM í Tékklandi í dag.

Forseti knattspyrnusambands Portúgal, Fernando Gomes, segir að það sé vel mögulegt að Cristiano Ronaldo verði einn þeirra þriggja eldri leikmanna sem hverju liði á Ólympíuleikum er heimilt að vera með í sínum hópi.

Það gæti því mögulega orðið annasamt hjá Ronaldo næsta sumar en EM fer fram í Frakklandi í byrjun sumars áður en Ólympíuleikarnir taka við í byrjun ágúst.

„Það er mögulegt,“ sagði Gomes. „Cristiano er einn þeirra leikmanna sem koma til greina en við höfum engar ákvarðanir tekið í þessum efnum.“

Ronaldo spilaði með liði Portúgals á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 en endaði neðst í sínum riðli þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×