Innlent

Gæsluvarðhald fellt úr gildi yfir manni sem reyndi að berja djöfla úr konu

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur Íslands hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem er undir sterkum grun um að hafa ráðist á konu á heimili hennar.

Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur átti maðurinn að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. febrúar.

Hæstiréttur segir skilyrði gæsluvarðhalds að afbrot geti að lögum varðað tíu ára fangelsi. Var það mat Hæstaréttar að ekki verði talið að því skilyrði sé fullnægt og af þeirri ástæðu var gæsluvarðhaldsúrskurðurinn felldur úr gildi.

Sagðist vera Gabríel erkiengill

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem birtur er á vef Hæstaréttar, kemur fram að tilkynnt var til lögreglu að verið væri að ganga í skrokk á konu í íbúð á þriðju hæð. Tilkynnandi hafi verið íbúi fyrir neðan. Þegar lögreglan kom á vettvang hefði maðurinn tekið á móti lögreglunni og verið blóðugur á höndum og í andliti og greinilega í annarlegu ástandi. Hann var strax færðu í handjárn og á meðan talaði hann um að hann væri Gabríel erkiengill og hefði verið að lemja djöfla úr konu. Konan stóð fyrir innan dyrnar og var mjög bólgin í andliti og blóðug, bæði í andlitinu og á fatnaði.

Hún tjáði lögreglu strax að maðurinn hefði lamið sig og var hún í kjölfarið flutt á slysadeild. Hún greindi frá því að maðurinn hefði ítrekað haft í líflátshótunum við hana, fyrrum unnusta hennar og börnin hennar.

Lögreglustjóri taldi brotið varða 16 ára fangelsi

Var það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi sé fullnægt, enda sé maðurinn undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi, eða ævilöngu fangelsi, og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjis gæsluvarðhalds. Segir lögreglustjórinn manninn hafa ráðist á konuna með alvarlegum hætt og sparkað meðal annars klæddur skóm í andliti hennar, slegið hana ítrekað í höfuð og reynt að kyrkja hana meðan hann hafi haft í hótunum um að drepa hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×