Innlent

Bruninn í Brekkubæjarskóla: Blysið fannst á göngustíg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brekkubæjarskóli á Akranesi.
Brekkubæjarskóli á Akranesi. Mynd/Heimasíða Brekkubæjarskóla.
Níu ára gamli drengurinn sem brenndist illa í Brekkubæjarskóla á mánudaginn verður útskrifaður af gjörgæsludeild Landspítala í dag eða á morgun. Íris Björg Sigurðardóttir, móðir drengsins, segir líðan hans eftir atvikum.

Skessuhorn greinir frá því að lögreglan hafi lokið rannsókn sinni á tildrögum slyssins. Beindist rannsóknin sér í lagi að því að rekja tilkomu neyðarblyssins sem olli brunanum.

„Blysið höfðu nokkrir bekkjarfélagar fundið við göngustíg við Brekkubæjarskóla og gerðu sér ekki grein fyrir hvað þeir höfðu í höndunum. Sá sem fyrir slysinu varð hafði stungið blysinu í vasann og tekið það með sér inn í skólastofuna og afleiðingar þess þarf ekki að rekja frekar,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Drengurinn hefur legið á gjörgæsludeild frá því á mánudaginn. Hann hlaut 2. og 3. stiga bruna á um 15 prósent líkamans þar af 8-9 prósent líkamans þriðja stigs bruna.

Íris Björg segir við Skessuhorn að drengurinn hafi brennst á maga, læri og höndum en sem betur fer hafi andlitið sloppið. Hann verði að öllum líkindum lagður inn á barnadeild í dag eða á morgun. Hún þakkar kennaranum Helga Ólafi Jakobssyni fyrir skjót viðbrögð þegar eldurinn kom upp.

Undir þetta tók móðir drengs í sama bekk í samtali við Vísi í vikunni.


Tengdar fréttir

Eldur í Brekkubæjarskóla

Skólayfirvöld vinna nú að því að ná í foreldra yngstu barna skólans og biðja þau um að sækja börnin.

„Kennarinn brást hárrétt við“

„Þetta gerðist greinilega ótrúlega hratt,“ segir móðir barns í Brekkubæjarskóla en eldur kviknaði í grunnskólanum á Akranesi á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×