Innlent

Keyrði á móti umferð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Ökumaður var króaður af lögreglu á Suðurnesjum fyrr í vikunni, vegna gruns um ölvun við akstur. Um var að ræða tvítuga konu sem hafði ekið á miklum hraða inn í hringtorg og keyrt á skilti sem stendur við torgið.

Hún mun þó ekki hafa látið það stöðva för sína samkvæmt tilkynningu frá lögreglu, heldur ók hún yfir kant á mótliggjandi aðrein. Þaðan fór hún út fyrir og veg og upp á aðra aðrein og var þar með farin að aka á móti umferð.

Konan var handtekin og var ölvunarakstur staðfestur á lögreglustöð.

Þá hafnaði bifhjól utan vega á Reykjanesbraut við Hafnaveg í Reykjanesbæ í fyrradag. Hjólið skaust tæpa hundrað metra eftir að það fór útaf og skemmdist mikið, en ökumaður hjólsins sagði ástæðuna vera að hann hefði ekið á steinvölu sem var á veginum. Því hafi hann misst stjórn á hjólinu.

Hann fann til í handlegg og ætlaði sjálfur að leita til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Einn ökumaður var tekinn úr umferð í Austurbænum í nótt, sem hafði reykt kannabis. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu viðurkenndi ökumaðurinn, sem er tvítugur karlmaður, að neyta kannabis á hverjum degi.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir af lögreglu í miðbænum í nótt. Tveir þeirra voru undir áhrifum fíkniefna og einn var ölvaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×