Innlent

Assange hyggst yfirgefa sendiráðshúsið

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Assange ætlar að yfirgefa sendiráðshús Ekvador í London.
Assange ætlar að yfirgefa sendiráðshús Ekvador í London. Vísir/AFP
Julian Assange, forsprakki WikiLeaks, segist ætla að yfirgefa sendiráðshús Ekvador í London „innan skamms“. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lauk nú rétt fyrir níu. Assange hefur haldið til í sendiráðinu í um tvö ár, en hann flúði þangað eftir að vera eftirlýstur. Enska lögreglan heldur úti vakt fyrir utan og þess að hann stígi út fyrir hússins dyr. Talið er líklegt að hann verði handtekinn og framseldur til Svíþjóðar þar sem hann er eftirlýstur fyrir kynferðisbrot sem hann á að hafa framið gegn tveimur konum þar í landi.

Assange fór ekki nánar út í það hvenær hann ætlar að yfirgefa sendiráðshúsið en  í næstu viku mun utanríkisráðherra Ekvador, Ricardo Patino, funda með utanrikisráðherra Bretlands, Philip Hammond, um hvernig framvinda mála verður. Patino sat við hlið Assange á blaðamannafundinum og sagði að þessu ástandi verði að linna, það hafi varað í tvö ár sem sé alltof langur tími. Patino sagði að það væri kominn tími til að virða mannréttindi Assange.

Vel er fylgst með málinu í Svíþjóð og kemur fram á vef sænska ríkissjónvarpssins kemur fram að yfirvöld þar í landi vilji fá hann framseldan til þess að geta yfirheyrt hann vegna kynferðisbrotanna sem hann er grunaður um að hafa framið.

Breskir fjölmiðlar hafa velt fyrir sér heilsufari Assange,sem hefur lokaður innandyra í tvö ár. Talið er heilsu hans sé farið að hraka; Hann er talinn eiga við hjartavandamál að stríða. Í sumum fjölmiðlum hefur einnig verið fullyrt að lungu hans séu ekki í góðu ástandi og að blóðþrýstingur hans sé of hár.

Assange vildi ekki fara nánar út í hvers vegna hann ætlaði sér að yfirgefa sendiráðshúsið, en sagði á blaðamannafundinum að ástæðan væri ekki sú sem að fólk héldi. Vísaði hann þá líklega til þess að hann ætlaði ekki að yfirgefaa húsið vegna versnandi heilsufars. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×