Innlent

Krefst þess að Landsnet fjarlægi háspennulínurnar

Haraldur Guðmundsson skrifar
Háspennulínur Landsnets liggja að Hamranesi við Vallahverfið í Hafnarfirði.
Háspennulínur Landsnets liggja að Hamranesi við Vallahverfið í Hafnarfirði. Vísir/GVA

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar krefst þess að Landsnet fjarlægi háspennulínur í landi bæjarins og segir þær hamla eðlilegri þróun sveitarfélagsins. Ályktun þess efnis var samþykkt í bæjarstjórninni á miðvikudag.



„Við erum að fara fram á að staðið verði við samkomulag frá 2009 um flutning á línum sem liggja að Hamranesi við Vallahverfið og fara í gegnum nýja hverfið Skarðshlíð þar sem búið er að leggja götur og setja upp staura,“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.



Haraldur sendi fyrirtækinu bréf í byrjun desember þar sem hann óskar eftir viðræðum um línurnar og tengir þær við umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2.



„Við óskum eftir því að fyrirtækið útskýri hvaða forsendur hafi breyst frá samkomulaginu 2009 og réttlæti að Landsnet hafi frestað þessum framkvæmdum. Það er mjög mikilvægt að þessar línur verði fjarlægðar svo við getum haldið áfram með uppbyggingu á svæðinu,“ segir Haraldur.



Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, segir fyrirtækið hafa fullan hug á að standa við samkomulagið og hefja viðræður við bæjaryfirvöld.



„Það var gerður viðauki við samninginn í október 2012 og þá var farið yfir allar þessar forsendur sem meira og minna tengjast því að flutningsþörfin inn á svæðið jókst hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir í kjölfar efnahagshrunsins. Við höfum fullan skilning á stöðu Hafnarfjarðarbæjar og í samningnum er gert ráð fyrir að við byggjum ný mannvirki, eigi síðar en 2020, sem þurfa að rísa svo línurnar geti farið,“ segir Guðmundur og heldur áfram:



„Bygging Suðurnesjalínu 2 er í raun og veru fyrsti áfanginn í þeirri framkvæmdaröð og því erum við að þrýsta á að fá leyfi fyrir henni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×