Innlent

„Menn hafa greinilega varann á“

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Mikil hætta er á flóðum ef eldgos verður í Bárðarbungu og gætu þau raskað raforkuflutningi.
Mikil hætta er á flóðum ef eldgos verður í Bárðarbungu og gætu þau raskað raforkuflutningi. vísir/vilhelm
Það er ekki eingöngu gasmengun frá gosinu í Holuhrauni sem getur valdið usla. Starfshópur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Viðlagatryggingar Íslands hefur sent frá sér greinargerð sem hafði það að meginmarkmiði að greina áhrif flóða í kjölfar eldgoss í Bárðarbungu.

Þessi ógn hefur haft í för með sér aukna eftirspurn eftir rafstöðvum hér á landi. „Við finnum fyrir aukinni eftirspurn og það eru ýmis fyrirtæki sem eru að versla, bæði birgjar og hjálparstofnanir,“ segir Kristófer S. Snæbjörnsson, sölustjóri véla- og tækjadeildar hjá Merkúr, sem er fyrirtæki sem selur meðal annars rafstöðvar. 

Kristófer S. Snæbjörnsson
Hann segir rafstöðvarnar geta bjargað miklu ef upp kemur rafmagnsleysi. „Þær geta bjargað miklu, sérstaklega tölvukerfum, og þess háttar. Þessir stóru lagerar hjá hinum ýmsu fyrirtækjum eru mest megnis keyrðir af tölvum. Það eru mörg fyrirtæki sem ekki geta komið frá sér afurðum nema að hafa rafmagn,“ segir Kristófer. 

Hann segir algengast að verið sé að spyrja um minni og meðalstórar rafstöðvar sem eru í kringum 30 kílóvött. „Þessar minni og meðalstóru rafstöðvar geta bjargað tölvukerfi í miðlungsstóru fyrirtæki. Menn hafa greinilega varann á enda er það mun skynsamlegra ef við lendum í einhverju veseni,“ bætir Kristófer við.

Fyrirspurnirnar koma víðs vegar að og meðal annars frá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Að undanförnu hefur þó mikið borið á fyrirspurnum frá fyrirtækjum á Suðausturlandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×