Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig þremur alþingismönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson fréttablaðið/ernir
Sjálfstæðisflokkurinn fengi kjörna 22 þingmenn ef kosið væri nú. Það er þremur þingmönnum fleiri en hann fékk í alþingiskosningunum 2013 og yrði flokkurinn sá stærsti á landinu, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins.

Samfylkingin yrði næststærsti flokkurinn með 12 þingmenn og myndi bæta við sig þremur þingmönnum frá kosningunum 2013. Framsóknarflokkurinn yrði þriðji stærsti flokkurinn með níu þingmenn. Það er tíu þingmönnum færri en hann fékk í kosningunum 2013 en sami þingmannafjöldi og hann fékk í kosningunum 2009.

Stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, auka fylgi sitt í könnuninni frá því í könnun Fréttablaðsins í október. Sjálfstæðisflokkurinn fer úr 30,3 prósentum í 32,9 prósenta fylgi, en Framsóknarflokkurinn fer úr 8,7 prósentum í 12,8 prósent. Björt framtíð fer úr 10,6 prósentum upp í 12,5.

Finnur fyrir vaxandi stuðningi

„Við gleðjumst yfir því ef við sjáum fylgistölur á leiðinni upp,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um niðurstöðurnar. Það beri þó að hafa í huga að kannanir hafi verið dálítið misvísandi og hann vildi gjarnan bíða og sjá fleiri en eina könnun staðfesta hreyfingu í þessa átt.

„En á hinn bóginn er því ekki að neita að við finnum fyrir vaxandi stuðningi við þær áherslur sem við erum að beita okkur fyrir. Það virðist vera ánægja með útfærslur skuldaaðgerðanna, sem er augljóslega eitt af stærri málum ríkisstjórnarinnar,“ segir Bjarni. Þá séu menn einnig að verða vitni að ánægjulegri þróun annars staðar. „Það er lág verðbólga, vöxtur í kaupmætti, afkoma ríkissjóðs miklu betri en á horfðist,“ segir Bjarni. Ástandið sé smám saman að lagast og horfur ágætar. „Það væntanlega skiptir máli líka,“ segir Bjarni.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að flokkurinn hafi fundið fyrir miklum hljómgrunni fyrir áherslur sínar að undanförnu. „Skuldaleiðréttingarútspilið mun örugglega hafa einhver áhrif til skamms tíma á fylgi flokkanna. En það sem mestu skiptir er auðvitað heildarmyndin sem við blasir, að auka ójöfnuð og flytja skattbyrðina yfir á venjulegt fólk,“ segir hann. Um það muni samfylkingarmenn tala á næstu vikum. Þar nefnir hann hækkun á matarskatti og „aðförina að framhaldsskólunum“ sérstaklega.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segir niðurstöðurnar ánægjulegar. „Við höfum verið að mælast nokkuð lengi með fylgi frá 12 og allt upp í 18 eða 19 prósent eftir því hvaða fyrirtæki sér um kannanirnar. Ég býst við að það megi lesa út úr öllum könnunum til samans þá niðurstöðu að við virðumst hafa bætt fylgi okkar um 100 prósent miðað við kosningaúrslitin,“ segir Guðmundur.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á föstudaginn eru afar skiptar skoðanir á afstöðu til skuldaleiðréttingarinnar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 56 prósent vera sátt, en 44 prósent sögðust ekki vera sátt. „Við höfum tekið mjög einarða afstöðu gegn þessari skuldaniðurfærslu og bent á að hún sé ekki mjög ábyrg efnahagsaðgerð og ekki ábyrg meðferð á opinberu fé,“ segir Guðmundur. Flokkurinn hafi um langt skeið andmælt þessari aðgerð.

Píratar með sex þingmenn

Þrjár kannanir sem Fréttablaðið hefur gert í röð sýna að þingflokkur Pírata myndi tvöfaldast að stærð frá síðustu kosningum, fara úr þremur þingmönnum í sex. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar núna fengi flokkurinn 9,2 prósent.

„Ég lít svo á að tíu prósent sé raunfylgið okkar eins og er,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata. Hann segist þó taka skoðanakönnunum með fyrirvara. Stuðningsmenn Pírata séu fólk sem náist auðveldlega í, ungt fólk sem sé nálægt síma og í tölvu. Málstaður Pírata nái síður til eldra fólks sem svarar síður í skoðanakönnunum en er líklegra til að mæta á kjörstað.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vildi ekki tjá sig um niðurstöður skoðanakönnunarinnar við Fréttablaðið. Hvorki náðist í Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, né Svandísi Svavarsdóttur, formann þingflokksins, við vinnslu fréttarinnar.

Um aðferðarfræði könnunarinnar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins var gerð 12. og 13. nóvember. Úrtakið var 3.000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá og var hringt í 1.244 þar til náðist í 800 manns í réttum hlutföllum (lagskipt) samkvæmt kyni, aldri og búsetu. Það er 64,3 prósenta svarhlutfall.

Spurt er: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag? Ef fólk er óákveðið er spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef fólk er enn óákveðið er spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk?

Eftir spurningu þrjú eru 57 prósent sem taka afstöðu, 16 prósent segjast ekki mundu kjósa eða skila auðu, 11 prósent segjast óákveðin og 16 prósent svara ekki spurningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×