Innlent

Minna öryggi með vígbúnaði

Jóhanna Margrét Einarsdóttir og Hanna Rut Ólafsdóttir skrifar
Íslendingar virðast færast í átt að "norska módelinu“. Í flestum norskum lögreglubílum eru vopnakistur. Síðan er yfirmanna að ákveða hvort þeim skuli beitt. Hér eru á nokkrum stöðum lögreglubílar búnir skotvopnakistum og fleiri umdæmi íhuga að láta setja slíkan búnað í bílana.
Íslendingar virðast færast í átt að "norska módelinu“. Í flestum norskum lögreglubílum eru vopnakistur. Síðan er yfirmanna að ákveða hvort þeim skuli beitt. Hér eru á nokkrum stöðum lögreglubílar búnir skotvopnakistum og fleiri umdæmi íhuga að láta setja slíkan búnað í bílana. Fréttablaðið/Ernir
Hér hefur tilkynningum um ofbeldisglæpi ekki fjölgað á síðustu árum, að sögn Helga Gunnlaugssonar, afbrotafræðings og prófessors við Háskóla Íslands.

Hegningarlagabrot séu færri og manndrápstíðni lægri en annars staðar á Norðurlöndum, þar sem tíðni glæpa sé líka almennt lægri en annars staðar í Evrópu. Hann bendir á að aðeins séu þrjú lönd í Evrópu þar sem lögreglumenn bera ekki vopn; Noregur, Bretland og Ísland.

Helgi segir að það sem menn óttist helst við vopnavæðingu lögreglu sé stigmögnun vopnavæðingar, að glæpamenn komi sér upp meiri vopnum. „Almennt sýna rannsóknir að aukinn vopnaburður lögreglu ýtir undir notkun á vopnunum, oft með tilheyrandi slysum og skaða. Aukinn vopnaburður lögreglu þýðir ekki sama og aukið öryggi borgara og lögreglu.“

Að mati Helga hefði átt að fara fram á Alþingi, í ríkisstjórn og í samfélaginu umræða um hvort lögreglan ætti að þiggja 150 MP5-vélbyssur að gjöf frá Norðmönnum. Afar framandi veruleiki sé fyrir fólk að lögreglan hafi hátæknivopn í fórum sínum. Það sé eitthvað sem fólk hrylli við.Frá því hefur verið greint að lögreglustjórar hafi sent starfsmenn sína á námskeið í því hvernig eigi að beita MP5-byssunum. Misjafnt er eftir lögregluumdæmum hvort geymd eru vopn í sérstökum kistum í lögreglubílum. Það er ákvörðun lögreglustjóra á hverjum stað. 
Helgi segir ekki farsæla stefnu að hver og einn lögreglustjóri ákveði hvort slíkum vopnum verði bætt í safnið. „Mér finnst heldur ekki rétt að það sé lagt á herðar hverjum og einum lögreglustjóra að ákveða hvort vopnum skuli beitt. Við hljótum að þurfa sameiginlegar reglur um þetta. Reglur sem ræddar hafa verið í samfélaginu, af stjórnvöldum,“ segir hann. 
Þá sé nauðsynlegt að huga að þjálfun lögreglumannanna. Þeir þurfi að kunna að beita vopnunum rétt og þeir þurfi sálfræðiþjálfun. Þeir þurfi þjálfun í því hvernig þeir eigi að bregðast við í hættulegum aðstæðum.
Lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki vill koma fram undir nafni, segir mörg dæmi hafa komið upp í hans starfi þar sem hann hafi þurft að snúa frá verkefnum þar sem hann hafði ekki aðgang að atvinnutækjum til þess að verja sjálfan sig eða aðra. Útköllin hafi verið með þeim hætti að rökstuddur grunur væri um að þar væri einstaklingur með skotvopn á ferð sem væri jafnvel hættulegur sjálfum sér og öðrum. Í slíkum tilfellum sé það eina í stöðunni að draga sig í hlé og bíða eftir sérsveit lögreglunnar.


Skotvopn sem tollgæslan hefur lagt hald á. Fréttablaðið/GVA
Á síðasta ári fékk sérsveit lögreglunnar 30 tilkynningar vegna einstaklinga sem voru vopnaðir skotvopnum. Alls var tilkynnt um 65 tilvik þar sem vopn komu við sögu en í 31 tilviki var um egg- eða stunguvopn að ræða.

Af verkefnum sérsveitarinnar 2013 voru 128 tilfelli aðstoð við lögregluembætti sem fólst þá aðallega í vopnuðum lögregluaðgerðum og handtökum hættulegra manna. Af 309 verkefnum sveitarinnar voru sérsveitarmenn vopnaðir skotvopnum í 83 tilfellum.

Í júlí 2011 voru hér á skrá um 60 þúsund skotvopn og er talið að þeim hafi fjölgað síðan. Rúmlega 30 byssur eru á hverja 100 íbúa og er Ísland í 15. sæti í heiminum yfir fjölda skotvopna á íbúa samkvæmt The Small Arms Survey, rannsóknarverkefni sem rekið er af The Graduate Institute of International and Development Studies í Genf í Sviss.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.