Innlent

Óttast slysahættu vegna kinda

Freyr Bjarnason skrifar
Virgill Scheving Einarsson er óánægður með að hólfið fyrir kindurnar hafi ekki verið lagfært.
Virgill Scheving Einarsson er óánægður með að hólfið fyrir kindurnar hafi ekki verið lagfært. Fréttablaðið/Valli
Feðgar frá Vatnsleysuströnd segja að Vegagerð ríkisins hafi svikist um að hafa eftirlit með hólfi fyrir kindur sem er á milli Reykjanesbrautar og Vatnsleysustrandar.

Kindurnar þeirra eru um áttatíu talsins og sleppa iðulega út í gegnum göt á girðingunni sem þeir segja að Vegagerðin hafi ekki látið gera við.

„Hólfið heldur ekki fé, það er bara eins og gatasigti. Því hefur ekki verið haldið við í tíu ár,“ segir Virgill Scheving Einarsson, landeigandi á Efri-Brunnastöðum, orðinn þreyttur á gangi mála.

Sonur hans, Kristmundur, á kindurnar sem hafa verið geymdar bæði í þessu hólfi og í Grindavík. Kindurnar hans, sem og annarra sem hafa verið með kindur í hólfinu, hafa margoft sloppið úr því. Þær hafa fundist á beit við Reykjanesbrautina en brautin liggur þvert yfir land þriggja bæja á Vatnsleysuströnd, þar á meðal Efri-Brunnastaða. Beitarhólfið sjálft er skammt frá afleggjaranum í Voga og liggur girðing meðfram Reykjanesbrautinni á tvö til þrjú hundruð metra belti.

Saman ætla feðgarnir að reka fé í hólfið 20. september næstkomandi. „Þá komum við til með að reka féð í hólf sem heldur ekki. Ég óttast mest slysahættu vegna þess að þær sleppa alltaf út á Reykjanesbrautina,“ segir Kristmundur.

Faðir hans, Virgill, bendir á að bílar aki þar um á mikilli ferð. „Lögreglan í Keflavík er alltaf að hringja og segja að það séu kindur fyrir ofan Voga. Núna ætlum við að sleppa þeim lausum í hólfin. Vegagerðin er ábyrg, ekki við,“ segir hann.

Fyrir tveimur vikum sendi Virgill Vegagerðinni og innanríkisráðuneytinu bréf þar sem hann óskaði eftir því að Vegagerðin stæði við samning sem þeir segja að hún og sveitarfélagið Vogar hafi gert við landeigendur á Vatnsleysuströnd árið 1994 um að eftirlit yrði með hólfinu. „Það er bagalegt að það skuli hafa verið gerður skriflegur samningur, sem ekki hefur verið staðið við,“ segir Virgill og bætir við að Landgræðsla ríkisins hafi skaffað áburð fyrir beitarhólfið en enginn hafi komið með hann síðustu fimm til sex ár.

Vegagerðin staðið við samkomulagið

Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri hjá Vegagerð ríkisins, kannast við að hafa séð tölvupóstinn sem Virgill sendi. Hann segir að samningsdrög séu til um gerð beitarhólfs fyrir búfé milli sveitarfélagsins Voga og Vegagerðarinnar frá árinu 2008. „Þar kemur fram að Vegagerðin ætlaði að girða ákveðinn kafla frá Reykjanesbraut niður undir Vatnsleysustrandarveg sem hún gerði. Að öðru leyti snýr þetta að sveitarfélaginu sem sér um og kostar viðhald girðinga og hefur eftirlit með að búfjáreigendur virði bann við lausafjárgöngu. Vegagerðin hefur því staðið að fullu við sinn þátt í þessu samkomulagi frá 2008,“ segir Svanur. Ekki náðist í bæjarstjóra Voga í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×