Innlent

Metfjölgun erlendra ferðamanna á Landspítalanum

Sveinn Arnarsson skrifar
Aukin umsýsla er við erlenda ferðamenn
Aukin umsýsla er við erlenda ferðamenn Fréttablaðið/Vilhelm
Heimsóknum erlendra ferðamanna á Landspítalann hefur fjölgað verulega fyrstu átta mánuði ársins, samanborið við sama tímabil í fyrra.

252 erlendir ferðamenn hafa innritast á legudeildir og hefur samanlagður legudagafjöldi náð 1406 dögum, samanborið við 154 erlenda ferðamenn á sama tíma í fyrra upp á 976 legudaga. Í júlí og ágúst leggjast að jafnaði tveir erlendir inn á Landspítalann, á degi hverjum.

Að sama skapi hefur komum ferðamanna á dag-, göngu- og bráðadeild spítalans fjölgað mjög. Aukning á fjölda einstaklinga er 54 prósent. 2.590 erlendir ferðamenn hafa komið á deildirnar fyrstu átta mánuði ársins samanborið við 1.645 ferðamenn árið áður.

Þessir 2.590 erlendu ferðamenn hafa komið 4.853 sinnum á bráða-, dag- eða göngudeildir. Sumir þeirra koma oftar en einu sinni sem skýrir mismuninn milli fjörlda ferðamanna og fjölda koma. Athygli vekur að 1719 komur eru skráðar í bækur Landspítalans á tveimur stærstu ferðamannamánuðum ársins, júlí og ágúst.

Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingarvarnar, segir aukinn kostnað geta falist í því að sinna erlendum ferðamönnum. „Hafi þeir verið á erlendum sjúkrahúsum síðastliðna sex mánuði þurfa þeir að fara í einangrun vegna bakteríu sem eru ónæmar fyrir ákveðnum tegundum sýklalyfja. Þessu fylgir meiri umsýsla og meiri kostnaður. Hver sjúklingur þarf þá að fara í einbýli og er sinnt á ákveðinn hátt sem krefst hlífðarbúnaðar.“

María Heimisdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans.
Aukin umsýsla við erlenda ferðamenn

María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans segir mikla vinnu á bak við hvern erlendan sjúkling og að umsýslan sé ívið meiri en við íslenska sjúklinga. „Það er heilmikil pappírsvinna í kringum erlenda sjúklinga og mun meiri en þá innlendu. Við verðum að tryggja þa að fá allar upplýsingar til að hægt sé að fá greiðslur frá erlendum tryggingafélögum sjúkling og þessi aukna umsýsla kostar landspítalann mikla peninga. Við sjáum mikla aukningu í komum erlendra ferðamanna til okkar í júlí og ágúst. Við hinsvegar látum þessa vinnu ekki hafa áhrif á þjónustu við sjúklinginn sem er aðalatriðið en á endanum þarf að taka þetta allt saman svo landspítalanum berist greiðslur frá erlendum tryggingafélögum sjúklinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×