Lífið

Yrsa öskrar úr sér lungun

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Það vakti töluverða athygli í vikunni þegar örvæntingarfull öskur heyrðust innan úr portinu á bak við Jómfrúna í miðborg Reykjavíkur, sem er raunar þekktara fyrir djasstóna. Nokkrir ferðamenn könnuðu á hverju stæði og kom þá í ljós að þar stóð Yrsa Sigurðardóttir, glæpasagnadrottningin sjálf, og öskraði úr sér lungun.

Engin hætta var á ferð, en þar var Ottó Tynes, markaðsstjóri Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar, RIFF, að taka upp auglýsingu fyrir hátíðina.

„Þetta var reyndar nokkuð spaugilegt. Ferðamennirnir brostu bara þegar þeir sáu okkur, en þeir héldu örugglega að við værum að ræna hana eða eitthvað áður en þeir komu í portið,“ segir Ottó um auglýsinguna sem verður sýnd á næstu dögum í sjónvarpi.

Fjölmargir þekktir einstaklingar öskruðu fyrir RIFF, þar má nefna Ara Eldjárn, Þorstein Bachmann, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Veru Sölvadóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×