Innlent

380 milljónum úthlutað án heimildar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir Vísir/GVA
„Fulltrúar fjármálaráðuneytisins komu á fund fjárlaganefndar Alþingis í gær. Þeir sögðu að fjármálaráðuneytið myndi leita skýringa á því hvers vegna farið var að úthluta 380 milljónum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í vor án þess að Alþingi hafi veitt heimild fyrir því,“ segir Vigdís Hauksdóttir formaður Fjárlaganefndar Alþingis.

Vigdís segir að fulltrúar fjármálaráðuneytisins ætli að krefja atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið svara. Sjálf segist hún vilja fá svör við því hvort það sé ætlunin að peningarnir komi á fjáraukalögum eða hvort þeir hafi verið teknir af óráðstöfuðu fé ráðuneytisins. Vigdís segist hafa verið ánægð með viðbrögð fjármálaráðuneytisins í málinu.

Næsti fundur fjárlaganefndar verður 25. þessa mánaðar. Þá koma á fund nefndarinnar starfsmenn innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins.

Nokkrar undirstofnanir þessara ráðuneyta fóru langt fram úr fjárheimildum á fyrri hluta ársins. Má þar nefna Landspítalann, Sjúkratryggingar Íslands og Vegagerðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×