Innlent

Stór mál eru væntanleg í haust

Linda Blöndal skrifar
Alþingi verður sett þann 9. september og er málaskrá ríkisstjórnarinnar í vinnslu. Ljóst er að miklar breytingar verða á húsnæðiskerfinu, velferðarþjónustunni og tekið verður á umgengni á ferðamannastöðum svo eitthvað sé nefnt.

Haustþingið hefst annan þriðjudag í septembermánuði og er vinnsla stóru málanna í fullum gangi hjá ríkisstjórninni. Málaskrár eru enn ekki fullbúnar og tæmandi en sumt er þó þegar ákveðið.

Ýmis mál urðu út undan á síðasta þingi. En að frátöldu fjárlagafrumvarpinu snúast stærstu þingmál stjórnarinnar sem þegar eru ljós um meiriháttar endurskipulagningu í húsnæðismálum.

Þar má nefna ný húsnæðislánafélög, lög um húsaleigu og húsnæðissamvinnufélög verða innleidd sem og nýtt húsnæðisbótakerfi. Endurskoðuð verða lög um greiðsluaðlögun einstaklinga og vegna yfirskuldsettra fasteigna. Þá eru boðaðar miklar breytingar á barnaverndarmálum og yfirstjórn þeirra og málefnum fjölskyldna, svo sem fæðingarorlofsmála. Stór og umdeild mál koma aftur inn í þingið. Endurskoðuð náttúruverndarlög verða lögð fram, sem taka meðal annars á umgengni og gjaldtöku á ferðamannastöðum, og í þeim á að skapa sátt um þá staði sem falla undir svokallaðan almannarétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×