Innlent

Kúga kærustur með grófri myndbirtingu

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigþrúður segir að hótanir um myndbirtingu geti haft mikil áhrif jafnvel þótt konan sé flutt frá ofbeldismanninum og byrjuð að byggja líf sitt upp að nýju.
Sigþrúður segir að hótanir um myndbirtingu geti haft mikil áhrif jafnvel þótt konan sé flutt frá ofbeldismanninum og byrjuð að byggja líf sitt upp að nýju. VÍSIR/Getty
Það er orðið mjög algengt að menn í ofbeldissamböndum hóti fórnarlömbum sínum dreifingu á óþægilegu og grófu myndefni af þeim.

„Þetta kemur í veg fyrir að konurnar þori yfirhöfuð að fara frá manninum,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. „Þetta er þó frekar á meðal yngri kvenna en eldri.“

Sigþrúður segir að þessi þróun hafi orðið á löngum tíma. „Almennt hefur þetta þau áhrif að hann stjórnar áfram lífi hennar og heftir frelsi hennar. Þrátt fyrir að konan sé búin að koma sér undan líkamlegu valdi hans þá hefur hann vopn í hendinni.“

Hún segir að oft láti ofbeldismaðurinn ekki til skarar skríða. „Við þekkjum mörg dæmi um að þeir hafi ekki gert það. Í flestum tilfellum sem við höfum heyrt af þá eru þetta innantómar hótanir og ekki byggðar á neinum rökum.“

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir að reynt sé að hafa samband við konur sem verða fyrir grófri myndbirtingu.

„Lögreglan er í sjálfu sér ekki með mikið frumkvæðiseftirlit á netinu en það koma vissulega ábendingar til okkar um myndir og annað slíkt. Ef það er hægt að þekkja þá sem eru á myndum og myndirnar eru þess eðlis þá er haft samband við viðkomandi.“ Erfitt geti þó reynst að sanna hver dreifði myndefninu.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, þekkir mörg dæmi þess að konur sem koma úr ofbeldissamböndum hafi myndbirtingu sveimandi yfir sér.

„Í nútímakynlífi og með nútímatækni er oft til myndefni sem er kannski framleitt af báðum en síðan er hægt að nota það sem vopn gegn henni, eflaust líka karlinum en ég hef bara engin dæmi um það.“

Hún segir myndbirtinguna auka vigt ofbeldisins. „Það að það sé til gróft myndefni af þér sem þú hefur enga stjórn á er svona ný vídd í ofbeldisheiminum.“

Senda myndirnar á vinnuveitendur

„Við þekkjum dæmi þess að myndir hafi ýmist verið settar á netið eða sendar í tölvupósti til ákveðinna aðila, til dæmis vinnuveitenda, samstarfsfólks eða kunningja,“ segir Sigþrúður.



„Ég man eftir dæmum þar sem hótað er að senda foreldrum eða börnum viðkomandi myndirnar. Eins og almennt á við í ofbeldissamböndum þá er hoggið þar sem sárast er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×