Lífið

Býður upp áritaða Pelé-treyju

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jóhannes Valgeir Reynisson með Pelé treyjuna.
Jóhannes Valgeir Reynisson með Pelé treyjuna. mynd/einkasafn
„Það er frábært að geta nýtt þessa verðmætu treyju til styrktar góðu málefni,“ segir Jóhannes Valgeir Reynisson, betur þekktur sem Blái naglinn. Hann stendur fyrir uppboði á treyju brasilíska landsliðsins, sem árituð er af knattspyrnugoðsögninni Pelé.

Jóhannes hefur þó ekki hitt Pelé sjálfan. „Sagan á bak við treyjuna er sú að ég fékk símtal frá Íslensk-ameríska, sem hafði verið í samskiptum við rakvélaframleiðandann Gillette. Pelé var í auglýsingum fyrir Gillette og bauð Íslensk-ameríska mér treyjuna af því að ég er góðgerðarfélag og gekk ég að sjálfsögðu að því,“ útskýrir Jóhannes Valgeir.

Þess má til gamans geta að Messi er í auglýsingum Gillette þessa dagana.

„Uppboðið er til styrktar rannsóknum á ristilkrabbameini hjá Landspítalanum.“ Einnig er í gangi söfnun fyrir svokölluðum aðgerðaþjarka eða róbóta en þjarkinn kostar um 300 til 350 milljónir króna.

Uppboðið á treyjunni hófst í HM-stofunni á RÚV í gær. „Uppboðið er í gangi hjá Óla Palla á Rás 2 en það mun ekki standa lengi yfir. Ég mun svo uppfæra uppboðin á Facebook-síðu Bláa naglans.“

Sem stendur er komið boð upp á 300.000 krónur. Með uppboðinu vill Jóhannes einnig koma af stað vitundarvakningu varðandi ristilkrabbamein. „Það deyr einn maður á viku hér á landi úr ristilkrabbameini.“

Jóhannes hvetur fólk til þess að láta fylgjast með sér. „Fólk fer með bílana sína í skoðun, fólk á líka að fylgjast með sjálfu sér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.