Innlent

Hálendisvegir lokaðir vegna bleytu í jarðvegi

Vegurinn að Herðubreiðarlindum verður líklega opnaður í byrjun júlí.
Vegurinn að Herðubreiðarlindum verður líklega opnaður í byrjun júlí. Fréttablaðið/GVA
Hálendisvegum á Íslandi er mörgum hverjum enn haldið lokuðum vegna bleytu í jarðvegi. Vegagerðin gefur næstum daglega út kort þar sem skyggð eru svæði þar sem allur akstur er bannaður. Þar kemur fram að akstur sé bannaður til að komast hjá vegaskemmdum vegna aurbleytu.

Mikill snjór eða bleyta er enn á hálendinu sem gerir það að verkum að vegir geta verið afar votir. Gætu þeir af þeim sökum orðið fyrir miklu tjóni af bílaumferð í þannig tíðarfari. Einnig eru sumum vegum í friðlandi lokað þó að vegir geti tekið við umferð. Þá er það oft svo að friðlýstu svæðin gætu skemmst vegna ágangs ferðamanna.

Bannsvæði Vegagerðarinnar nær yfir nær allt miðhálendi landsins, frá Mýrdalsjökli í suðri, að Vatnajökli í austri, og nær yfir allt hálendið norðan Vatnajökuls. Einnig eru Eyvindarstaðaheiði og Arnarvatnsheiði nánast algjörlega lokaðar. Kjalvegur hefur þó verið opnaður, auk Veiðivatnaleiðar (F228), Jökulheimaleiðar (F229) og Landmannaleiðar (F225).

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hafa þessar lokanir ílengst sums staðar fram eftir öllu sumri. Sumar leiðir hefur verið mögulegt að opna í lok júlí, aðrar mun fyrr. Á vef Vegagerðarinnar er að finna allar upplýsingar um hálendislokanir og afléttingu þeirra þegar líður á sumarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×