Innlent

Tekjur sveitarfélaga jukust meira í fyrra en árið á undan

Brjánn Jónasson skrifar
Miklu munar um bætta stöðu fjögurra stærstu sveitarfélaganna þegar fjárhagur sveitarfélaga landsins er skoðaður.
Miklu munar um bætta stöðu fjögurra stærstu sveitarfélaganna þegar fjárhagur sveitarfélaga landsins er skoðaður. Fréttablaðið/Vilhelm
Tekjur 27 stærstu sveitarfélaganna jukust um 2,8 prósent umfram verðbólgu á síðasta ári. Það er um 0,4 prósentustigum meiri vöxtur en árið áður, samkvæmt samantekt greiningardeildar Arion banka á rekstri sveitarfélaganna.

Staða sveitarfélaganna hefur almennt batnað á síðustu árum, og var síðasta ár engin undantekning. Að meðaltali skiluðu sveitarfélögin 27, þar sem um 94 prósent íbúa landsins búa, 576 milljóna króna hagnaði í fyrra. Það er mun betri niðurstaða en árið 2012 þegar þau töpuðu 55 milljónum króna, og árið 2011 þegar tapið nam 274 milljónum króna.

Munar mest um stærstu sveitarfélögin

Greiningardeild Arion bendir á að mestu skipti bætt afkoma fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins, Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyrar. Þessi fjögur sveitarfélög skiluðu 12 milljarða króna hagnaði í fyrra samanborið við 5,5 milljarða tap árið 2012. Samkvæmt lögum sem sett voru árið 2011 mega heildarskuldir sveitarfélaganna ekki vera meiri en 150 prósent af tekjum. Á því eru þó undantekningar, til dæmis tengdar orkufyrirtækjum, auk þess sem sveitarfélögin fengu tíu ár til að ná þessu marki.

Af sveitarfélögunum 27 eru 19 undir þessu viðmiði, en átta skulda meira en 150 prósent af tekjum. Í fjórum er hlutfallið yfir 200 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×