Innlent

Þörf á mun fleiri hjúkrunarrýmum

Bjarki Ármannsson skrifar
Biðlisti eftir hjúkrunarrýmum er hlutfallslega lengstur í Reykjavík.
Biðlisti eftir hjúkrunarrýmum er hlutfallslega lengstur í Reykjavík. Vísir/Daníel
Borgarstjórn samþykkti einróma á fundi í gær að skora á heilbrigðisráðherra að standa án tafar við viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis við Sléttuveg með 88 hjúkrunarrýmum.

Í tilkynningu frá borgarstjórn segir að velferðarráðuneytið hafi frá árinu 2008 gert ráð fyrir hjúkrunarheimili á Sléttuvegi vegna hlutfallslegrar fjölgunar aldraðra á komandi árum. Um svipað leyti hafi það verið staðfest í skipulagi borgarinnar. Jafnframt hafi ráðuneytið farið fram á að gerður yrði sérstakur samstarfssamningur milli ráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sjómannadagsráðs um starfsemi hjúkrunarheimilisins áður en framkvæmdir hefjast.

Í yfirlýsingunni segir að ráðuneytið vilji reisa hjúkrunarheimilið á árunum 2014 til 2016. Fyrir liggur þjónustusamningur milli Reykjavíkurborgar og Sjómannadagsráðs um rekstur þjónustukjarna með um hundrað íbúðum sem tengdar verða hjúkrunarheimilinu.

Biðlisti eftir hjúkrunarrýmum er sem stendur hlutfallslega lengstur í Reykjavík og fjölgun aldraðra hröðust. Í tilkynningu borgarstjórnar segir að rýmin sem viljayfirlýsingin tekur til við Sléttuveg séu aðeins brot af áætlaðri þörf á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×