Innlent

Þeir fara með kvótann á einu bretti burt

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
„Það ljóta er að enginn reiknaði með þessu,“ segir Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, um lokun fiskvinnslu í bænum þar sem sextíu manns starfa.

Eins og fram kom í fréttum RÚV áformar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Vísir að flytja alla fiskvinnslu sína til Grindavíkur og loka vinnslum á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi.

Starfsmönnum var tilkynnt í gær að lokað yrði eftir mánuð en að þeim byðist öllum starf við fiskvinnsluna í Grindavík. Aðalsteinn segir ákvörðunina vera áfall fyrir bæjarfélagið og á Húsavík ríki mikil sorg og reiði.

„Fólk hefur fest rætur hér og fjárfest í eignum. Það bjóst enginn við þessu enda nýbúið að kaupa nýja flæðilínu og talað um að byggja vinnsluna upp sem nýtískulegt frystihús. Þetta er því bæði áfall fyrir starfsfólkið og bæinn enda er þetta vinnustaður sem önnur fyrirtæki þjónusta og leggur mikið til samfélagsins í sköttum og gjöldum,“ segir Aðalsteinn og spyr í leiðinni hvernig standi á því að menn hafi enga samfélagslega ábyrgð. „Þeir fara með kvótann á einu bretti burt, kvóta sem varð til hér á Húsavík.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×