Lífið

Geta æft allan daginn í verkfallinu

Baldvin Þórmóðsson skrifar
Elísabet Skagfjörð og félagar í leikfélagið MH eru að æfa nýtt verk þessa dagana.
Elísabet Skagfjörð og félagar í leikfélagið MH eru að æfa nýtt verk þessa dagana. Vísir/Daníel
„Þetta er rosalega góður hópur, frábær blanda af yngri og eldri nemendum skólans,“ segir Elísabet Skagfjörð framhaldsskólanemi um Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð.

Leikfélagið setur þessa dagana upp leikritið Lífið: Notkunarreglur, en verkið skrifaði Þorvaldur Þorsteinsson. Leikstjóri sýningarinnar er hinn verðlaunaði Vignir Rafn Valþórsson.

„Vignir er frábær, hann lék sjálfur í verkinu síðast þegar það var sett upp þannig að hann þekkir það mjög vel,“ segir Elísabet en verkið hefur einu sinni áður verið flutt árið 2007 sem útskriftarverkefni leiklistarnema Listaháskólans.

Það tók sinn tíma að velja verk sem hentaði hópnum en þegar leikstjórinn stakk upp á verki Þorvalds var hópurinn ekki lengi að samþykkja.

„Við vorum öll að kasta hugmyndum fram og til baka en þegar hann útskýrði verkið fyrir okkur þá leist okkur öllum rosalega vel á það,“ segir Elísabet.

Tónlist leikritsins er ekki af verri endanum en í verkinu eru söngperlur eftir þjóðskáldið Megas við texta Þorvaldar.

Varðandi verkfall framhaldsskólakennara segir Elísabet það ekki hafa getað verið betur tímasett

„Það er alveg frekar hentugt, núna getum við verið allan daginn. Við erum að búa til sviðsmyndina sjálf og það fer rosalega mikill tími í þessa vinnu.“

Hægt er að kaupa miða í gegnum netfangið leikfelag@nfmh.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×