Innlent

Kvartað vegna titrings í húsum

Freyr Bjarnason skrifar
Borgarfulltrúinn segir að innanstokksmunir nágranna Lýsisreitsins hafi skemmst.
Borgarfulltrúinn segir að innanstokksmunir nágranna Lýsisreitsins hafi skemmst.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fóru í gær fyrir umræðu um uppbyggingu á þéttingarreitum með tilliti til reynslu af Lýsisreitnum svokallaða í Vesturbænum.

Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi segir að undanfarinn mánuð hafi nágrannar fundið fyrir miklum titringi í húsum sínum af völdum sprenginga vegna framkvæmdanna á Lýsisreitnum.

„Íbúar hafa kvartað yfir því að það séu komnar sprungur í veggi og að það hafi orðið tjón á innanstokksmunum. Við sjálfstæðismenn báðum um að þetta yrði tekið fyrir hjá borgarstjórn því að þrátt fyrir kvartanir íbúa í heilan mánuð virðist borgin ekki alveg hafa stigið inn í þetta ferli,“ segir Hildur. „Það er bagalegt því að miðað við uppbygginguna sem borgin vill fara í, að ég tali nú ekki um að samkvæmt nýju aðalskipulagi eigi að þétta byggð, er þetta eitthvað sem verður að vera meira á hreinu.“

Að sögn Hildar eru framkvæmdirnar mögulega miðaðar við uppbyggingu í ytri hverfum og gera ekki ráð fyrir „svona viðkvæmri eldri byggð“. „Það þarf að endurskoða þetta og mér finnst að borgin eigi að stíga mjög kröftuglega inn í og taka þetta mjög alvarlega til þess að uppbyggingin næstu árin geti gengið vel í sátt og samlyndi við alla sem eru þarna fyrir.“

Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, tók undir fyrirspurn Hildar og sagði að strax í dag yrði á vettvangi stofnaður starfshópur til að fara heildstætt yfir öll þau mál sem lúta að uppbyggingu á þéttingarreitum í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×