Innlent

Ofurtölva á Íslandi stórbætir veðurspár

Svavar Hávarðsson skrifar
Úrkomuspár munu verða nákvæmari með nýrri ofurtölvu.
Úrkomuspár munu verða nákvæmari með nýrri ofurtölvu. Fréttablaðið/Stefán
„Ég lít á þetta sem spennandi verkefni fyrir upplýsingatækniiðnað á Íslandi. Tilurð þess er að danska veðurstofan þarf að endurnýja þennan búnað á fimm til sjö ára fresti, en öflugri tölva þýðir meiri orkuþörf og kvaðir sem opinberar stofnanir í Danmörku starfa undir leyfa ekki rekstur þessarar tölvu þar í landi,“ segir Ingvar Kristinsson, þróunarstjóri Veðurstofu Íslands.

Á dögunum var undirritaður samningur um samstarf Veðurstofu Íslands og dönsku veðurstofunnar (DMI) um stóraukið samstarf, og þar á meðal rekstur tölvu sem hefur tífalt meiri reiknigetu en sú tölva sem DMI nýtir í dag. Ávinningur DMI er að nýta umhverfisvæna orkugjafa Íslands en Ingvar segir að orkuþörf nýju ofurtölvunnar og búnaðar sem henni tengist nálgist eitt megavatt á ári.

Veðurstofu Íslands gefst á móti tækifæri til að stækka reiknisvæðið í kringum Ísland og bæta þjónustu sína á öllum sviðum; í veðurspám, hafísspám, reikningum á fortíðarloftslagi og framtíðarsviðsmyndum mögulegra loftslagsbreytinga. Einnig gefast betri tækifæri til styrkumsókna, bæði úr norrænum og evrópskum rannsókna- og þróunarsjóðum. Sameiginlega munu DMI og Veðurstofan geta beitt sér enn betur að samstarfi hvað varðar loftslagsmál á norðurslóðum.

Veðurstofurnar tvær hafa í langan tíma verið í virku samstarfi um veðurþjónustu, og lengi keyrði DMI veðurlíkan fyrir Ísland, sem notað var sem grunnlíkan fyrir veðurspár á Íslandi. Í sumar skipti Veðurstofan um veðurlíkan sem kallaði á meira reikniafl en DMI hafði aflögu.

Ingvar segir að hugsunin sé að setja nýju ofurtölvuna upp í húsakynnum Veðurstofunnar, en einnig hafi menn velt því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að vinna með einkaaðilum, bæði hvað varðar rekstur og hýsingu. „Það kemur í ljós á næstu mánuðum, en að því er stefnt að seint á næsta ári verði ofurtölvan komin í rekstur og veðurspár byggi á henni snemma árs 2016,“ segir Ingvar, sem telur rekstur ofurtölvunnar hér áhugavert upphafsverkefni á þessu sviði. Ekki aðeins fyrir Veðurstofuna heldur einnig fyrir íslensk tölvuhýsingarfyrirtæki sem geti nýtt tækifærið til að kynnast þessum rekstri frá fyrstu hendi.

Ingvar Kristinsson
Framtíðarsýnin er fjölþjóðlegt samstarf 

Flestar veðurstofur í Evrópu reka sínar eigin ofurtölvur til þess að reikna veðurspár. Þróun ofurtölva er hröð og kröfur til veðurstofa um nákvæmari veðurspár kalla á hraðari uppfærslur á ofurtölvunum en áður. Á sama tíma er þrengt að fjárhag veðurstofa. 

Norska og sænska veðurstofan starfa saman að rekstri ofurtölvu, en nú er stefnt að samnorrænni gagnahýsingu og rekstri ofurtölvu til að reikna veðurspár fyrir öll Norðurlöndin frá árinu 2020.

„Vinna er hafin við að meta hvað tölva þarf að hafa mikla reiknigetu til að geta sinnt öllu þessu svæði sem nær yfir öll Norðurlöndin og Ísland og Grænland þar með talin. Menn eru jafnvel að velta því fyrir sér að Eystrasaltsríkin verði þar líka með,“ segir Ingvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×