Innlent

150 nemendur útskrifast frá Keili

Randver Kári Randversson skrifar
Útskrifaðir nemendur frá Keili fagna í dag.
Útskrifaðir nemendur frá Keili fagna í dag. Mynd/Keilir
Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 150 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú í dag.

Háskólabrú Keilis útskrifaði 71 nemanda úr fjórum deildum: Félagsvísinda- og lagadeild; Hugvísindadeild; Verk- og raunvísindadeild; og Viðskipta- og hagfræðideild. Dúx var Ágúst Þór Birnuson með 9,21 í meðaleinkunn. Elva Björk Guðmundsdóttir flutti ræðu útskriftarnema.

14 nemendur luku atvinnuflugmannsprófi frá Flugakademíu Keilis. Christine Birgitte Thisner fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,71 í meðaleinkunn. Magnús Þormar flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.

47 nemendur útskrifuðust frá Íþróttaakademíu Keilis, 37 einkaþjálfarar og 10 styrktarþjálfarar. Sigríður Bjarney Guðnadóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,62 í meðaleinkunn og Arna Hjartardóttir í ÍAK styrktarþjálfun með 8,98 í meðaleinkunn. Inga Rún Guðjónsdóttir flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.

Fyrsti hópur leiðsögumanna í ævintýraferðamennsku brautskráðist á vegum Keilis og Thompson Rivers University í Kanada. Er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem Keilir brautskráir nemendur á vegum erlends háskóla. Við athöfnina fengu 13 nemendur staðfestingu á að hafa lokið átta mánaða háskólanámi í ævintýraferðamennsku (Adventure Sport Certificate). Ástvaldur Helgi Gylfason fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 8,87 í meðaleinkunn. Ræðu útskriftarnema fyrir hönd ævintýraleiðsögunáms flutti Orri Sigurjónsson.

Þá fór fram brautskráning kandídata í tæknifræðinámi Keilis, sem heyrir undir Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Þetta er í þriðja skipti sem Háskóli Íslands útskrifar nemendur með BSc-gráðu í tæknifræði og brautskráðust í ár fimm nemendur af tveimur brautum, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði.

Helgi Þorbergsson, starfandi deildarforseti Rafmagns- og töluverkfræðideildar Háskóla Íslands og Sverrir Guðmundsson forstöðumaður tæknifræðinámsins afhentu prófskírteini. Sigurður örn Hreindal fékk viðurkenningu fyrir áhugavert og vel unnið verkefni. Karl Inga Guðnasyni fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur, en hann var með 8,74 í meðaleinkunn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×