Innlent

Meiri harka í umgengnismálum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Umgengnismálum hjá sýslumannsembættunum hefur fjölgað gífurlega eftir að sú breyting var gerð á lögum að foreldrar skuli leita sátta áður en til dómsmála kemur.
Umgengnismálum hjá sýslumannsembættunum hefur fjölgað gífurlega eftir að sú breyting var gerð á lögum að foreldrar skuli leita sátta áður en til dómsmála kemur. vísir/stefán
Árið 2013 voru 106 umgengnissamningar gerðir hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Það er mikil fjölgun frá því sem áður var en eingöngu 38 samningar voru gerðir árið 2000. Umgengnismál er stofnað þegar annað eða báðir foreldrar biðja um úrskurð hjá sýslumanni um umgengni eða biðja um staðfestingu á samningi sem þeir gera með aðstoð embættisins.

Á sama tímabili hefur orðið tíföldun á dagsektarmálum. Dagsektarmál er þegar annað foreldrið biður um dagsektir á hendur hinu foreldrinu vegna brots á umgengnissamningi. Málin snúast um umgengni þess sem barnið býr ekki hjá og í flestum tilfellum eru það feður sem sækja rétt sinn.

Eyrún Guðmundsdóttir, deildarstjóri sifja- og skiptadeildar hjá Sýslumanninum í Reykjavík, segir að árið 2003 hafi umgengnissamningar fengið réttaráhrif þannig að hægt væri að knýja fram umgengni samkvæmt samningi. Það sé hluti skýringarinnar á fleiri dagsektarmálum en hún tekur þó fram að mörg málanna séu dregin til baka og fari því ekki alla leið í kerfinu.

Sáttameðferð hjá sýslumanni

„Maður myndi ætla að þessi fjölgun tengdist auknu jafnrétti kynjanna. Það hafa orðið miklar breytingar á inntaki umgengninnar og enginn vafi leikur á að tíminn sem feður hafa umgengni við börn sín hefur lengst,“ segir Eyrún.

Önnur ástæða fleiri umgengnismála er að lagasetning frá byrjun árs 2013 skyldar foreldra til að fara í sáttameðferð hjá sýslumanni áður en til forræðismáls kemur fyrir dómstólum. 

„Það er lögfest að foreldrar reyni að finna lausn saman í stað þess að yfirvald taki svo stóra ákvörðun um líf barns,“ segir Eyrún. 

Sýslumaður getur úrskurðað um umgengnismál ef samningar nást ekki. Ef sáttameðferð ber ekki árangur er áframhald málsins ekki hjá sýslumanni heldur fyrir dómstólum.

Elísabet Berta Bjarnadóttir, félagsráðgjafi, segir örvæntingu og uppgjöf vera algengari hjá fólki sem er að skilja.vísir/pjetur
Foreldrar í stríði

Elísabet Berta Bjarnadóttir, félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, veitir fólki hjónabands- og skilnaðarráðgjöf. Fjölgun umgengnismála hjá sýslumanni rímar við tilfinningu hennar fyrir aukinni hörku í þeim málum. 

Hún segir Grettistaki hafa verið lyft í bættum og auknum samskiptum feðra við börn sín sem sé afar jákvæð þróun en á móti sé vaxandi karllægt baráttuviðhorf í samfélaginu.

„Ég myndi vilja sjá meiri samskiptahæfni hjá ungu fólki en í staðinn er hnefinn í vaxandi mæli látinn ráða för í andlegum málefnum. Fólk er orðið of upptekið af baráttu, að sigra hinn, í stað þess að hafa þarfir barnanna að leiðarljósi.“

Elísabet segir þetta birtast í umgengnis- og forræðisdeilum þar sem oft skipti mestu máli hver eigi pening fyrir frekum og baráttuhörðum lögfræðingi.

„Fólk fer í stríð, hver er sterkastur og hver vinnur. Það ætti að vera útilokað sjónarmið í svona málum.“

Síðustu tvö ár hefur Elísabet orðið vör við meiri uppgjöf hjá fólki vegna fjárhagserfiðleika.

„Þegar fólk er komið á þann stað þá er oft styttra í að harka færist í leikinn og minna verður um sættir og samtöl. Þetta tengist líka fjárhagsstöðu. Maður hefur séð foreldra sem vilja jafna umgengni til að þurfa ekki að borga meðlag og sömuleiðis foreldra sem hafna jafnri umgengni því þá missa þeir af meðlaginu,“ segir Elísabet og bætir við að aukið jafnrétti kynjanna í forsjár- og umgengnismálum búi til nýjar áskoranir og spurningar sem þurfi að svara.

Tekið skal fram að samkvæmt lögum er meðlag greitt til foreldris með lögheimili barna jafnvel þótt umgengni er jöfn. Í einhverjum tilfellum er þó samið um að ekkert meðlag sé greitt sé barnið til jafns hjá móður og föður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×