Innlent

Læknar vísa kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búast má við mikill röskun á starfsemi spítala landsins ef til vinnustöðvunar kemur.
Búast má við mikill röskun á starfsemi spítala landsins ef til vinnustöðvunar kemur.
Lækna- og Skurðlæknafélög Íslands vísuðu fyrr í dag kjaradeilum sínum til ríkissáttasemjara. 

Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélagsins, segir í samtali við Vísi að þrátt fyrir að vilja ekkert gefa upp um kröfur félagsmanna þá beri enn mikið á milli krafna þeirra og tilboðs samninganefndar ríkisins. Sigurveig segir lækna fara fram á verulega hækkun á launum sínum.

„Það er læknaskortur í landinu og við verðum hreinlega að bæta kjör lækna svo að þeir geti hugsað sér að koma heim að sérnámi loknu. Læknum hefur fækkað undanfarið á Íslandi og það er uggvænleg þróun,“ segir hún og bætir við að þessi þróun sé stærsta ástæðan fyrir háum kröfum Læknafélagsins.

Aðilar að Læknafélagi Íslands eru allir sjúkrahús- og heilsugæslulæknar, ef frá eru taldir þeir sem eru sjálfstætt starfandi.

Helgi Kjartan Sigurðsson, formaður Skurðlæknafélag Íslands, segir félagsmenn sína hafa verið með lausa kjarasamninga, eins og aðrir, frá því í febrúar og hafi þeir átt í samningaviðræðum við samninganefnd ríkisins í dágóðan tíma. Þær hafi þó hvorki gengið né rekið og því var ákveðið að beina deilunni til ríkissáttasemjara.

Fyrstu fundir læknafélagana eru boðaðir á morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×