Innlent

Helmingi færri konur en karlar í vinnu

Freyr Bjarnason skrifar
Halldór Sævar segir að sumt í niðurstöðunum hafi komið sér á óvart en annað ekki.
Halldór Sævar segir að sumt í niðurstöðunum hafi komið sér á óvart en annað ekki. Fréttablaðið/Valli
Að minnsta kosti 47 prósent blindra og sjónskertra á aldrinum 18 til 67 ára stunda vinnu og þrettán prósent eru í námi. Tæp 60 prósent karla eru í vinnu á móti 32 prósentum kvenna.

Þetta kemur fram í niðurstöðum úttektar sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gert á stöðu atvinnumála hjá blindum og sjónskertum á Íslandi.

„Sumt kom mér á óvart og annað ekki. Munurinn á atvinnuþátttöku karla og kvenna kom mest á óvart,“ segir Halldór Sævar Guðbergsson, atvinnu- og virkniráðgjafi á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð, aðspurður.

„Við höfum verið að velta fyrir okkur hverjar séu skýringarnar á þessu og munum skoða þetta betur í vetur þegar við hittum fólk í viðtölum,“ segir hann og bætir við að málið verði krufið enn frekar á ráðstefnu 14. nóvember.

Hlutfall blindra og sjónskertra í vinnu virðist vera mun hærra hér á landi en í öðrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum. „Ef maður skoðar þetta í alþjóðlegum samanburði þá eru atvinnumálin í góðum málum á Íslandi en ég myndi samt gjarnan vilja sjá hærra hlutfall úti á hinum almenna vinnumarkaði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×