Innlent

Þriggja ára stúlku bjargað frá drukknun í Vestmannaeyjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leiklaugin er hægra megin við vaðlaug efst á myndinni. Laugarnar eru aðskildar með rauðri brú.
Leiklaugin er hægra megin við vaðlaug efst á myndinni. Laugarnar eru aðskildar með rauðri brú. Mynd/Heimasíða Sundlaugar Vestmannaeyja
Þriggja ára gömul stúlka var hætt komin í sundlaug Vestmannaeyja um eittleytið í dag. Stúlkan var eina og hálfa mínútu í kafi áður en henni var komið á sundlaugarbakkann og endurlífgunartilraunir hófust. Arnsteinn Ingi Jóhannesson, forstöðumaður laugarinnar, segir í samtali við Vísi að björgunarafrek hafi verið unnið.

Að sögn forstöðumannsins er verið að fara yfir málin í þessum töluðu orðum og öryggismyndavélar skoðaðar. Við fyrstu sýn virðist sem stúlkan, sem var með föður sínum í lauginni, hafi losað sig við kúta sína og farið ofan í vatnið í leiklaug á útisvæði.

Arnsteinn segir að sundlaugargestur hafi brugðist fyrst við og dregið stúlkuna upp úr vatninu. Á sama tíma hafi starfsmaður innanhúss verið búinn að átta sig á vandamálinu, látið sundlaugarvörð í búri utandyra vita sem hafi borið að á sama tíma. Endurlífgunartilraunir hófust um leið og var mikil hagur í því að sá sem þar fóru fremst í flokki menn sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Var meðal annars um að ræða lögreglumann á Selfossi sem ættaður er úr Vestmannaeyjum auk starfsmanna á Herjólfi sem vel kann til verka við endurlífgun.

Þá segir Arnsteinn að lögreglu og sjúkrabifreið hafi borið að innan fimm mínútna. Viðbrögð hafi verið til fyrirmyndar á alla kanta.

„Viðbrögð alls staðar eftir að þetta uppgötvast eru fumlaus.“

Arnsteinn Jóhannesson við rennibrautirnar í Vestmannaeyjum á framkvæmdatíma.Vísir/Óskar P. Friðriksson
Björgunarafrek unnið

„Hún byrjaði mjög fljótlega að kasta upp vatni og gráta,“ segir Arnsteinn um hvernig endurlífungartilraunir hafi gengið. Ekki hafi verið sérstaklega margir í lauginni í dag enda sólarlaust á Heimaey. Fólki hafi samt eðlilega verið brugðið.

„Drukknun er auðvitað alltaf alvarlegt mál en fólk verður enn skelkaðra þegar um barn er að ræða,“ segir Arnsteinn.

Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum var stúlkan flutt á sjúkrahús bæjarins og í kjölfarið send til skoðunar í Reykjavík.

Arnsteinn Ingi er afar ánægður með hvernig til tókst og segir hafa sýnt sig að öryggiseftirlit í sundlauginni í Vestmannaeyjum virki. Hann segir gesti og starfsfólk sitt hafa unnið björgunarafrek við aðstæðurnar sem sköpuðust í lauginni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×