Svo virðist sem hæstaréttarlögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson sé kominn með húðflúrsbakteríuna. Hann hefur nú fengið sér stærðarinnar húðflúr á öxlina og stefnir á fleiri.
„Já þetta er bara byrjunin,“ segir Sveinn í samtali við Vísi. „Þetta er fyrsti áfangi af svona „hálfsleeve“ sem ég ætla að fá mér.“
Fyrir er Sveinn með nafn bróður síns húðflúrað á vinstri handlegginn en nýja flúrið hefur að sögn lögmannsins enga persónulega merkingu.
„Þetta er svona tribal-munstur frá Samóaeyjum. Þeir voru með svona tattúverað framan í sér, gömlu ættarhöfðingjarnir. Mig hefur alltaf langað í þetta.“
Það var Fjölnir Tattú sem flúraði Svein Andra og tók það um fjórar klukkustundir. En var þetta ekkert vont?
„Þetta var ekkert þægilegt en maður beit bara á jaxlinn. Ég var orðinn svolítið aumur í lokin.“
