Innlent

Ný framkvæmdáætlun í jafnréttismálum lögð fram í haust

Randver Kári Randversson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, leggur fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum í haust.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, leggur fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum í haust. Mynd/velferðarráðuneytið
Auka þarf þátttöku karla í umræðum um jafnrétti og láta stefnumótun í auknum mæli taka mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra leggur á komandi þingi fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára þar sem í fyrsta skipti verður sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef velferðarráðuneytisins.

 Á komandi þingi mun félags- og húsnæðismálaráðherra leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára. Þar verður sérstakur kafli um karla og jafnrétti þar sem byggt verður á tillögum starfshóps um karla og jafnrétti. Tillögur hópsins fjalla um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og að stefnumótun taki í auknum mæli mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Dæmi um málaflokka sem tillögurnar taka til eru karlar og umönnunarstörf; karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður; karlar sem gerendur og þolendur í ofbeldismálum og klám og vændiskaup.

„Mikilvægt er að hafa jafnréttismál að leiðarljósi við alla stefnumótun og bæði kynin þurfa að koma að mótun málaflokksins. Í þessu starfi eru fæðingarorlofsmálin okkur hvatning, þau kenna okkur að líta ekki á jafnréttismálin sem einangrað fyrirbæri enda gott dæmi um hvernig opinber stefnumótun sem tekur tillit til kynjajafnréttis getur aukið lífsgæði okkar allra í samfélaginu“ skrifar Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra í greininni sem birtist í Fréttablaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×