Fótbolti

Özil: Ég vil verða goðsögn á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mesut Özil.
Mesut Özil. Vísir/getty
Mesut Özil, miðjumaður Arsenal og þýska landsliðsins, er staðráðinn í að standa sig á HM í Brasilíu í sumar en hann stefnir á að verða goðsögn í lifanda lífi hjá stuðningsmönnum þýska landsliðsins.

Özil mætir til Brasilíu eftir fyrstu tímabilið sitt í enska boltanum þar sem hann skoraði fimm mörk og gaf níu stoðsendingar í 26 deildarleikjum með Arsenal. Hann var hluti af Arsenal-liðinu sem vann enska bikarinn, fyrsta titil félagsins í níu árs.

Özil hefur ekkert unnið með þýska A-landsliðinu sem vann síðast stórmót 1996 þegar það fagnaði sigri á EM á Englandi.

Þjóðverjum finnst 18 ár alveg meira en nóg án sigurs á stórmóti en Þýskaland hefur lyft HM-bikarnum í þrígang. Özil vill afreka það sama og menn á borð við FritzWalter, WolfgangOverath og LotharMatthaus.

„Þessir þrír eru goðsagnir í þýskum fótbolta. Þeir unnu svo marga titla. Ég dáist að því sem þeir afrekuðu og veit að þeir voru svipaðir leikmenn og ég er í dag,“ segir Özil í viðtali við Sport Bild.

„Ég lít á mig sem hefðbundinn leikstjórnanda. Það verða ekki margir þannig á HM. Ég gæti meira að segja verið sá síðasti.“

„Ég vil feta í fótspor þessara manna og verða goðsögn eins og þeir. Sá sem vill verða goðsögn þarf að vinna heimsmeistaramótið. Við förum til Brasilíu með það í huga að láta þann draum rætast,“ segir Mesut Özil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×