Innlent

Erilsöm nótt hjá lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Hari
Vakt lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu var nokkuð erilsöm í nótt. Nokkuð var um útköll vegna hávaða í heimahúsum og einnig þurfti að leysa upp nokkur unglingasamkvæmi sem höfðu farið úr böndunum.

Þá stöðvaði lögreglan í Hafnarfirði og Garðabæ bíl á tólfta tímanum, þar sem grunur lék á fíkniefnasölu. Við leit fundust ætluð fíkniefni, en ökumaður bílsins gekkst við því að eiga efnin. Lögreglan segir málið hafa verið afgreitt með vettvangsformi og að allir hafa svo verið látnir lausir.

Seint í nótt gekk karlmaður fyrir lögreglubíl í miðbænum og neitaði að færa sig. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að hann hafi verið handtekinn eftir talsvert þref. Hann var án skilríkja og neitaði að gefa lögreglu upp nafn og kennitölu.

Þá var ekið á kyrrstæðan bíl í vesturbænum í nótt, en ökumaður bílsins hljóp af vettvangi. Hann sneri þó aftur skömmu seinna og var handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Lögreglan stöðvaði fimm ökumenn í nótt sem grunaðir voru um ölvun við akstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×