Innlent

Strætó harmar að hafa þurft að vísa fólki frá

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ekki komust allir sem vildu í bæinn með strætisvagni í dag.
Ekki komust allir sem vildu í bæinn með strætisvagni í dag. Fréttablaðið/Pjetur
„Mikil aðsókn hefur verið í strætó í dag og hafa færri komist í vagnana en vildu. Strætó bs. harmar það að ekki hafi allir komist að í vögnunum og einhverja hafi þurft að skilja eftir á biðstöðum,“ segir í tilkynningu frá upplýsingafulltrúa Strætó, Kolbeini Óttarsson Proppé en fréttir bárust þess efnis að yfirfullir strætisvagnar hafi keyrt framhjá fólki sem beið á biðstöðvum í dag.

Útskýringar fyrirtækisins eru á þann veg að ófyrirséður fjöldi fólks hafi verið í bænum í dag en þegar mest lét voru hátt í hundrað þúsund manns í bænum miðað við sjötíu þúsund í fyrra. „Fyrirfram var ekkert sem gaf til kynna að aðsóknin yrði eins mikil og raun bar vitni og var aksturinn í dag miðaður við reynsluna frá í fyrra, en þá var nægt pláss í vögnunum allan Gleðigöngudaginn,“ segir í tilkynningunni. „Það er flókið mál að kalla út mannskap og koma aukavögnum í akstur. Vagnstjórar eiga sitt frí eins og annað fólk og umfangsmikið kerfi eins og leiðakerfi Strætó bs. þarf að skipuleggja með fyrirvara. Það er því óhægt um vik að bregðast við slíkri ófyrirséðri fjölgun farþega á þessum degi á milli ára.“

Strætó fagnar þó því hversu mörgum hugnaðist að nýta sér þjónustu fyrirtækisins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×