Hún kemur fram á einu stærsta skemmtiferðaskipi Disney-fyrirtækisins sem kallast Disney Dream en það tekur um 4.000 farþega og siglir á milli Flórída og Bahama-eyja.
„Þetta hefur í raun staðið til síðan í apríl. Ég er hjá bandarískri umboðsskrifstofu, Mike Moloney Entertainment, sem er í Las Vegas og þeir sendu Disney efnið mitt og í kjölfarið fékk ég samning upp á tvo mánuði,“ segir Greta Salóme spurð út í ferlið.

Aðspurð um hvort samningurinn gefi ekki einnig vel í aðra hönd segir Greta Salóme; „Þetta eru góðar tekjur sem maður getur ekki sagt nei við. Þetta er líka gott á ferilskrána.“
Fyrir utan Disney er hún með mörg járn í eldinum. „Ég fer út í júlí og kem heim um miðjan september. Ég er líka að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands og vinna í nýju efni, þannig að það er nóg framundan.“