Innlent

Ræktuðu 772 kannabisplöntur

Snærós Sindradóttir skrifar
Ræktun í stórum stíl þekkist víða á höfuðborgarsvæðinu.
Ræktun í stórum stíl þekkist víða á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið/Stefán
204 kannabisplöntur sem lögreglan komst á snoðir um að væru í ræktun fundust aldrei. Þrír menn á fertugsaldri og einn á fimmtugsaldri hafa verið ákærðir fyrir ræktun á plöntunum til dreifingar og sölu. Tveir þeirra voru jafnframt ákærðir fyrir ræktun á 568 plöntum til viðbótar.

Lögreglan gerði húsleit á heimili tveggja mannanna í Kópavogi árið 2010 og fann þar 568 kannabisplöntur sem mennirnir höfðu ræktað um nokkurt skeið auk tæplega tveggja kílóa af kannabisefnum sem tilbúin voru til sölu.

Við húsleitina fann lögregla líka myndband þar sem mennirnir sáust setja upp ræktunaraðstöðu fyrir 204 plöntur við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Myndbandið leiddi lögreglu á hinn nýja ræktunarstað degi síðar en þá var búið að taka ræktunina niður og plönturnar á bak og burt.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Aðeins þrír mannanna mættu fyrir dóminn.

Þeir neituðu allir að hafa komið að ræktun á kannabisplöntum í húsnæðinu við Suðurlandsbraut en einn þeirra viðurkenndi að hafa staðið í ræktuninni í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×