Innlent

Spá frekari hækkun á húsnæðisverði

ingvar haraldsson skrifar
Húsnæðisverð mun fara hækkandi ef marka má greiningardeild Íslandsbanka.
Húsnæðisverð mun fara hækkandi ef marka má greiningardeild Íslandsbanka. vísir/Vilhelm
Greiningardeild Íslandsbanka spáir áframhaldandi hækkun húsnæðis- og leiguverðs næsta árið.

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 9,6 prósent síðastliðið ár. Þó lækkaði húsnæðisverð um 0,1 prósent í maí.

Hækkunin stafar af launahækkunum, góðu atvinnuástandi, fólksfjölgun, lágu raunvaxtastigi og aukinni eftirspurn ferðamanna eftir leiguíbúðum ef marka má greiningardeildina.

Velta á húsnæðismarkaði hefur aukist um 21,6 prósent á fyrstu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þó er veltan talsvert minni en hún var á árunum fyrir hrun.

Greiningardeild Íslandsbanka bendir á að hækkun fasteignaverðs undanfarið umfram verðbólgu og verðtryggð íbúðalán sé umtalsverð búbót fyrir eigendur fasteigna.

Fjárfestingar í húsnæði jukust um 31 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Fulltrúar Íslandsbanka telja þó ekki að bóla sé á fasteignamarkaði heldur séu fjárfestingarnar fremur afleiðing þess að lítið hefur verið byggt frá bankahruni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×