Innlent

Stórhættulegir fjallvegir: Vilja að Vestfjarðarvegur verði boðinn út í febrúar

Jón Hakon Halldórsson skrifar
Skorað er á þingmenn að beita sér fyrir því að Vestfjarðavegur verði lagður.
Skorað er á þingmenn að beita sér fyrir því að Vestfjarðavegur verði lagður. Vísir/Daníel.
„Við einfaldlega neitum að trúa því að íslenskir þingmenn séu afskiptalausir um velferð íbúa Vestfjarða,“ segja þeir Ólafur Sæmundsson, formaður Patreksfirðingafélagsins, og Guðmundur Bjarnason, formaður Arnfirðingafélagsins. Í bréfi sem þeir rituðu öllum þingmönnum krefjast þeir þess að Vestfjarðavegur verði boðinn út ekki seinna en 1. febrúar 2015.

„Lífsnauðsynlegar samgöngubætur sitja á hakanum og eru á byrjunarreit, rétt eins og fyrir mörgum árum. Ekkert þokast áfram og stjórnvöld taka ekki af skarið eins og nauðsynlegt er og höggva á hnútinn. Hér er horft til vegabóta í Gufudalssveit en þar kasta stofnanir ríkisins hugmyndum á milli sín sem allir, utan örfárra svo kallaðra umhverfissinna, eru sammála um að séu ekki aðeins skynsamlegar heldur og bráðnauðsynlegar. Þessar vegabætur eru kjarninn í því að viðhalda og efla samfélagið en örfáir og háværir einstaklingar halda þeim í herkví og ekkert gerist,“ segir í bréfinu.

Þá segir að fjallvegir séu stórhættulegir á vetrum og margir hreinlega treysti sér ekki til að aka um þá í snjó og hálku.

„Þetta á ekki síður við um ferðamenn sem sleppa svæðinu og fara þess í stað eitthvert annað,“ segir í bréfinu. Ekki þurfi að liggja sérlega lengi yfir kortum til að sjá að núverandi fyrirkomulag gangi ekki upp, kyrrstaðan sé óviðunandi og framtíðin liggi í nýjum vegi.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×