Innlent

Kallaður hrokagikkur, hálfviti, kjáni og siðblindingi

Samúel Karl Ólason skrifar
„Lagt var til að gefa Rússum Vestmannaeyjar enda Eyjamenn "helvítis asnar“ sem eiga að skila kvótanum, ég sjálfur dæmdur rugludallur og Sjálfstæðisflokkurinn sagður „spilltur“ og „ógeðslegur“.“
„Lagt var til að gefa Rússum Vestmannaeyjar enda Eyjamenn "helvítis asnar“ sem eiga að skila kvótanum, ég sjálfur dæmdur rugludallur og Sjálfstæðisflokkurinn sagður „spilltur“ og „ógeðslegur“.“ Vísir/Pjetur
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar segir viðbrögð við stuðningsyfirlýsingu sinni við Hönnu Birnu hafa verið mikil. Í nýjum pistli á heimasíðu sinni fer Elliði yfir viðbrögðin og veltir því fyrir sér hvort fyrirlitning á Sjálfstæðisflokknum ráði för hjá sumum.

Pistillinn ber heitið: Um haturspóst og pólitískan rétttrúnað - meira um stuðning við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

„Eins og búast mátti við hófst hefðbundið kvak á kommentakerfi DV og víðar. Lagt var til að gefa Rússum Vestmannaeyjar enda Eyjamenn „helvítis asnar“ sem eiga að skila kvótanum, ég sjálfur dæmdur rugludallur og Sjálfstæðisflokkurinn sagður „spilltur“ og „ógeðslegur“.“

Tekur meira mark á einkaskilaboðum

Elliði segir þetta hafa verið fyrirsjáanlegt og eingöngu lýsandi fyrir fólkið sem þar tali. Hann segist þó taka meira mark á þeim tölvupóstum, símtölum og einkaskilaboðum sem hann fékk, sem í þetta skipti hafi skipt tugum.

„Sennilega hef ég ekki fengið jafn marga haturspósta (hate mails) frá því að ég velti upp þeirri spurningu hvort rétt væri að hagræða meira í því sem snýr að menningu og listum.“

„Þá sem nú voru orðin hvöss.“

Elliði segir einn hafa hótað að gera það að marki sínu að taka Elliða niður héldi hann ekki kjafti. Annar sagði að Hanna Birna yrði afhjúpuð sem hluti af þeim flokki sem felldi Ísland. Þá segir Elliði að nafnkunnur penni hafi bent á að hann ætti að halda sér til hlés ef hann myndi ekki vilja „verða undir þeirri sömu öldu og kom Sjálfstæðisflokknum út úr þinghúsinu í hruninu“.

„Nokkrir lýstu svo yfir vonbrigðum með hvað ég sé mikill hrokagikkur, hálfviti, kjáni og/eða siðblindingi,“ segir Elliði.

Elliði ítrekar stuðning sinn við Hönnu Birnu og segir að fram til þessa hafi ekkert komið fram í þessu máli sem sé þess eðlis að hún ætti að segja af sér.Vísir/Stefán
Hugsi yfir stöðu þjóðfélagsumræðunnar

Þá segir Elliði að enn aðrir hafi farið mildari höndum um hann. „Sumir þökkuðu mér jafnvel fyrir hugrekkið. Aðrir töldu nær fyrir mig að taka þátt í því að fá Sjálfstæðisflokkinn til að sýna iðrun, slíks væri enda þörf þar sem flokkurinn hafi ekki enn „gert upp hrunið“.“

Ennfremur segir hann einhverja hafa íhugað að lýsa einnig yfir stuðningi við Hönnu Birnu. Þeir væru þó ekki vissir, því þeir vildu ekki kalla yfir sig reiði DV og/eða annarra.

Elliði segist hugsi yfir stöðu þjóðfélagsumræðunnar og hvort að undir niðri ráði ákveðin fyrirlitning á Sjálfstæðisflokknum för hjá sumum. Hvort það geti verið að aðrar kröfur séu gerðar til Sjálfstæðismanna og annarra ráðherra?

„Hvar var allur pólitíski rétttrúnaðurinn þegar Ögmundur Jónasson hafði bein afskipti af rannsókn lögreglu? Hvar var krafan um afsögn þegar Jóhanna braut jafnréttislög? Hvar var krafan um pólitíska ábyrgð þegar umboðsmaður alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Jón Bjarnason hefði brotið lög við úthlutun á makríl? Hvar voru pólitískir krossar brenndir þegar Svandís Svavarsdóttir braut lög í ráðherratíð sinni sem umhverfisráðherra?“

Ítrekar stuðning

„Þegar um er að ræða ráðherra Sjálfstæðisflokksins dugar hinvegar að einhverjir starfmenn ráðuneytis liggi undir grun til að krafist sé afsagnar.“

Elliði ítrekar stuðning sinn við Hönnu Birnu og segir að fram til þessa hafi ekkert komið fram í þessu máli sem sé þess eðlis að hún ætti að segja af sér. Ekkert hafi komið fram sem bendi til að hún hafi brotið lög eða brugðist embættisskyldum. Enginn grunur er um að Hanna Birna hafi sjálf lekið gögnum, né að hún hafi vitað af því að minnisblaðinu hafi verið dreift.

„Allt tal um að ráðherra hafi beitt lögreglustjóra þrýstingi hefur verið boðið til baka af lögreglustjóranum sjálfum. Engu síður er krafist afsagnar. Af hverju ætli það sé? Spyr sá sem ekki veit.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×