Innlent

"Það er nú ekki nema 22 stiga hiti, en það er ágætt“

Randver Kári Randversson skrifar
Hjónin Baldvin Kristjánsson og Jóna Björg Heiðdals frá Sauðárkróki, ásamt barnabarninu Ísak Jónssyni eru til vinstri. Við hlið þeirra eru hjónin Þórmundur Skúlason og Sólborg Rósa Hjálmarsdóttir frá Akureyri.
Hjónin Baldvin Kristjánsson og Jóna Björg Heiðdals frá Sauðárkróki, ásamt barnabarninu Ísak Jónssyni eru til vinstri. Við hlið þeirra eru hjónin Þórmundur Skúlason og Sólborg Rósa Hjálmarsdóttir frá Akureyri. Vísir/Arnþór
„Það er nú ekki nema 22 stiga hiti, en það er ágætt. Við sitjum bara hérna og sleikjum sólina og drekkum kaffi, og höfum það bara fínt,“ segir Baldvin Kristjánsson, eigandi annars tveggja húsbíla sem standa á húsbílastæði IKEA í Garðabæ.

Baldvin segir tjaldstæðið við IKEA vera mjög fínt í samanburði við önnur tjaldstæði landsins, þrátt fyrir að ekki sé snyrtiaðstaða þá sé þetta mjög fínt og ekki sé hægt að kvarta yfir neinu. „Það er ódýrt að vera hérna, kostar 500 kall og rafmagn innifalið. Svo er bara gott að vera hérna. Maður fer alltaf í IKEA þegar maður kemur suður, þannig að þetta liggur bara vel við. Þetta er virkilega fínt svæði, hreint og fínt, allt til fyrirmyndar. Það fær góða einkunn hjá okkur,“ segir Baldvin.

Þau hjónin búa á Sauðárkróki, en skelltu sér suður í gær. Þau hafa áður gist á IKEA-planinu og hafa góða reynslu af. Í hinum bílnum eru hjón frá Akureyri, sem þau þekkja í gegnum félagsskap húsbílaeigenda á Norðurlandi. Þau fara aftur heim á morgun, og segir Baldvin kulda og rigningu bíða þeirra þar, þótt hann geti nú reyndar ekki kvartað yfir sumrinu fyrir norðan þetta árið.

Þau hjónin hafa átt húsbíl frá árinu 2006 og líkar húsbílalífið afar vel. „Jú þetta er alveg indælt, indælislíf þetta húsbílalíf og mjög gott að koma hérna á IKEA-planið,“ segir Baldvin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×